Núverandi rekstur Marel á Íslandi verður skilinn frá móðurfélaginu og um hann stofnað nýtt dótturfélag, Marel ehf. sem mun verða sjálfstæð viðskiptaeining innan samstæðunnar við hlið AEW Delford, Carnitech, framleiðslufyrirtækis í Slóvakíu og Scanvaegt. Þetta kemur fram í tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar þar sem greint er frá skipulagsbreytingum hjá félaginu.


Í kjölfar samþættingar hjá félögum í eigum Marel hf., hefur stjórn félagsins ákveðið nýtt skipurit fyrir samstæðuna. Stærsta breytingin er sú að núverandi rekstur Marel á Íslandi verður skilinn frá móðurfélaginu, Marel hf. Samhliða þessari breytingu er fyrirhugað að breyta nafni móðurfélagsins, Marel hf. í Marel Food Systems hf. með samþykki hluthafafundar sem boðaður verður fljótlega. Þetta kemur fram í tilkynningunni.

Gert er ráð fyrir því að breytingar á stjórnskipulagi samstæðunnar taki að fullu gildi frá og með 1. janúar 2008, en frá þeim tíma munu rekstur móðurfélagsins og starfsemi á Íslandi (Marel ehf) verða aðskilin bókhaldslega
og fjárhagslega.

Víðtækt sölu- og þjónustunet Marel samstæðunnar um allan heim verður sameinað undir eignarhaldi móðurfélagsins og undir vörumerkinu Marel Food Systems til þess að tryggja betri þjónustu við viðskiptavini samstæðunnar og bjóða mismunandi heildarlausnir á öllum stigum matvælaiðnaðar. Þessar lausnir samanstanda af vörum frá öllum framleiðslueiningum samstæðunnar sem hver fyrir sig er þekkt fyrir framúrskarandi vörumerki, áreiðanleika og þjónustu.

Forstjóri móðurfélagsins, Marel Food Systems hf. er Hörður Arnarson sem verið hefur forstjóri Marel frá 1999, en hann hóf störf hjá félaginu árið 1985.

Aðstoðarforstjóri og framkvæmdastjóri sölunets Marel Food Systems verður Lárus Ásgeirsson sem undanfarið ár hefur verið annar tveggja forstjóra Scanvaegt International A/S, dótturfélags Marel. Lárus hóf störf hjá Marel árið 1991. Erik Steffensen mun áfram gegna stöðu forstjóra í Scanvaegt.

Kristján Þorsteinsson mun gegna stöðu framkvæmdastjóra fjármála hjá móðurfélaginu, Marel Food Systems hf. Kristján hóf störf hjá Marel árið 1999.

Sigsteinn Grétarsson mun verða forstjóri yfir starfsemi Marel á Íslandi í nýju dótturfélagi, Marel ehf, samhliða því að gegna stöðu framkvæmdastjóra viðskiptaþróunar móðurfélagsins. Sigsteinn hóf störf hjá Marel 1997.

Ásgeir Ásgeirsson verður framkvæmdastjóri vöruþróunar hjá móðurfélaginu og heldur jafnframt áfram störfum sem forstjóri AEW Delford Systems Ltd. Ásgeir hóf störf hjá Marel árið 1986.

Henrik Ladefoged verður framkvæmdastjóri þjónustunets hjá Marel Food Systems. Hann heldur einnig áfram störfum sem framkvæmdastjóri þjónustu hjá Scanvaegt.

Með þessari breytingu á skipulagi Marel samstæðunnar er betur greint á milli einstakra eininga samstæðunnar í því markmiði að nýta auðlind allra fyrirtækja innan samstæðunnar eins og best verður á kosið. Þess er vænst að breytingin skapi aukið virði og veiti viðskiptavinum betri þjónustu samhliða því að bæta tengsl og efnahagslegan ávinning innan virðiskeðjunnar.