Velta M-veitinga ehf., rekstraraðila Metro veitingastaðanna, nam 676 milljónum króna á síðasta ári sem er 36% aukning frá árinu 2020. Félagið skilaði 73,5 milljóna hagnaði eftir skatta árið 2021 samanborið við 16,9 milljóna hagnað árið áður. Um var að ræða metár hjá félaginu bæði hvað tekjur og hagnað varðar.

Rekstrargjöld M-veitinga jukust um 20% á milli ára og námu 558 milljónum. Þar af var laun og launatengd gjöld 190,5 milljónir en ársverk voru 35. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) jókst úr 33 milljónum í 118 milljónir á milli ára.

Félagið rekur tvo veitingastaði undir merkjum Metro í Skeifunni og á Smáratorgi. Í báðum tilvikum voru þar áður reknir veitingastaðir McDonalds.

Sjá einnig: 243 milljóna söluhagnaður

Kaupfélag Skagfirðinga (KS) náði samkomulagi um kaup á M-veitingum haustið 2020. Samkeppniseftirlitið heimilaði kaupin í ársbyrjun 2021. Í ákvörðun eftirlitsins kom fram að kaupin væru hluti af uppgjöri skulda fyrrum eiganda gagnvart KS og dótturfélögum þess.

Eignir M-veitinga voru bókfærðar á 132 milljónir í árslok 2021 og eigið fé nam 95 milljónum. Hlutafé félagsins var lækkað um 95 milljónir króna á síðasta ári með útborgun til kaupfélagsins.