Rekstur MS var nokkuð þungur á síðasta ári að sögn Egils Sigurðssonar, stjórnarfommanns MS.

„Okkur er þröngt sniðinn stakkurinn hvað varðar opinbera verðlagningu. Við höfum ekki fengið að breyta verð­ um á þeim vörum sem heyra undir verðlagsnefnd í rúmt ár,“ segir hann.

Þá hafi kostnaðarhækkanir, sérstaklega launahækkanir, haft áhrif. Egill á von á því að rekstrarafkoma MS hafi verið nálægt núlli á árinu 2017. „Við höfum bara ekki náð sölumarkmiðum okkar á árinu,“ segir hann.

„Ég trúi því ekki að menn séu farnir að borða minna. Markaðurinn er að stækka um 3-4% á ári. Íbúum fjölgar hérna og það er töluverð fjölgun ferðamanna þó að það hafi hægt á því.“

Sveiflur hafa verið í rekstri MS undanfarin ár. Félagið hagnaðist um 278 milljónir króna árið 2016 en skilaði 330 milljóna króna tapi árið 2015.

Hins vegar var hlutfé MS aukið um 2,3 milljarða undir lok síðasta árs og fyrirtækið stefnir á skyrsölu í Japan á næstu misserum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .