Rekstur Promens, dótturfélags Atorku, fyrstu 6 mánuði ársins einkenndist af samþættingu rekstrarins og kaupum félagsins á EPI. Rekstur félaganna gekk vel og í samræmi við áætlanir. Reksturinn í Frakklandi hefur hins vegar verið erfiður og eru hafnar verulegar skipulagsbreytingar sem miða að því að snúa rekstrinum við segir í tilkynningu Atorku til Kauphallarinnar.

Þar kemur fram að EBITDA framlegð félaganna var 8,2%, en að undanskildum rekstrinum í Frakklandi er EBITDA 10,3% fyrstu 6 mánuði ársins. Umsvif fyrirtækja í plastiðnaði hafa aukist mikið frá því á síðasta ári. Talsverður innri vöxtur hefur verið hjá félögunum en vöxturinn hefur að stærstum hluta komið með ytri vexti.

Í september á síðasta ári keypti Promens hverfisteypufélagið Bonar Plastics og svo bandaríska félagið EPI í apríl á þessu ári. Ársvelta fyrirtækja í plastiðnaði þegar Bonar Plastics og EPI eru komin að fullu inn í rekstur félagsins er áætluð um 18 milljarðar króna. Umsvif félaganna hafa því sexfaldast á milli ára miðað við ársveltu. Fyrirtæki í plastiðnaði starfrækja í dag 24 verksmiðjur í 11 löndum og er heildarfjöldi starfsmanna um 1700.