Rekstrarniðurstaða samstæðu Reykjavíkurborgar var jákvæð um rúma 11.106 milljónir króna á síðasta ári. Fyrri áætlun gerði ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu um 8.120 milljónir og því er niðurstaðan 2.986 milljónum betri en búist hafði verið við. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Rekstrarniðurstaða A-hluta samstæðunnar var neikvæð um 2,8 milljarða á síðasta ári, en A-hluti inniheldur þá starfsemi Reykjavíkurborgar sem er fjármögnuð með skatttekjum. Þar er um að ræða Aðalsjóð, Eignasjóð og Bílastæðasjóð Reykjavíkur. Hin neikvæða rekstrarniðurstaða A-hlutans orsakast aðallega af auknum launakostnaði, gjaldfærslu vegna lífeyrisskuldbindinga og minni tekjum af sölu á byggingarétti en búist var við, að því er fram kemur í tilkynningunni. Skuldsetningarhlutfall borgarinnar er 104%, en lögboðið hámarksviðmið er 150%. Séu skuldir Orkuveitu Reykjavíkur taldar með hefur skuldahlutfallið lækkað úr 327% árið 2010 í 216% á síðasta ári.

„Kjarasamningarnir voru dýrir og það sést í bókum borgarinnar. Það eru ýmis teikn á lofti í ytra umhverfinu sem við þurfum að vera á varðbergi gagnvart. Á heildina litið gengur reksturinn þó vel, skuldir eru að lækka, tekjur að aukast og þjónustan sömuleiðis,“ segir Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri.