Gengi hlutabréfa norræna flugfélagsins SAS rauk upp um næstum því 30% í fyrstu viðskiptum dagsins í kauphöllinni í Kaupmannahöfn í morgun eftir að greint var frá því að samkomulag hafi náðst við verkalýðsfélög flugmanna og flugliða á Norðurlöndunum og félaginu forðað frá því að fara í þrot. Flugið í kauphöllinni hefur aðeins lækkað síðan í morgun en stendur enn yfir 20%.

Danska viðskiptablaðið Börsen hefur á vef sínum í dag eftir Jacob Pedersen, sérfræðingi hjá Sydbank í Danmörku, að aðgerðirnar sem hafi verið gripið til og sátt náðst um muni að öllum líkindum koma í veg fyrir að rekstur SAS fari á hliðina.

Þar á meðal eru launalækkanir ofan í meiri vinnu og fleiri flugtíma flugmanna og lægri lífeyrisgreiðslur.

„Þetta breytir því kannski ekki að rekstur SAS verður erfiður. En það hjálpar til að samkomulagið er til staðar,“ segir hann.