Undir lok árs 2010 var Magnea Þórey Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandair Hotels, í kastljósi fjölmiðla eftir að hún lýsti því yfir opinberlega að Icelandair Hotels hefðu fullan hug á því að opna og reka spilavíti hér á landi. Í fréttatilkynningu sem Magnea Þórey sendi frá sér um miðjan desember 2010 kom fram að árlegar skatttekjur ríkissjóðs gætu numið um 700 milljónum króna af slíkri starfsemi.

Lítið hefur farið fyrir þessari umræðu síðustu misseri þó vissulega skjóti hún upp kollinum. Aðspurð segist Magnea Þórey enn vera á sömu skoðun og þetta sé eitt af þeim verkefnum sem séu í deiglunni til lengri tíma.

„Staðreyndin er sú að fólk getur spilað fjárhættuspil með því einu að fara í tölvuna heima hjá sér,“ segir Magnea Þórey í viðtali í Viðskiptablaðinu og furðar sig jafnframt á andstöðu stjórnvalda við rekstri spilavíta.

„Við höfum horft til þess að opna kasínó hér á landi og höfum enn fullan hug á því. Þetta mun auka flæði ferðamanna og búa til ný viðskipti — en þess utan mun þetta líka stórauka tekjur ríkissjóðs,“ segir hún.

„Þessi starfsemi er eftirsótt hvar sem þú kemur í heiminum og með því að opna kasínó erum við ekki bara að færa hana upp á yfirborðið og tryggja aukið, opinbert eftirlit og aðhald, heldur líka að auka við möguleika Íslands sem ferðamannastaðar. Það er hægt að reka kasínó með faglegum hætti þar sem börn hafa ekki aðgang og þar sem starfsemi og umhverfi þeirra lýtur lögum og reglum. Þetta skiptir meðal annars miklu máli fyrir ferðamenn frá Asíu. Þetta er einn af þeim þáttum sem þeir horfa til þegar þeir velja sér áfangastaði.“

Hvað sem öðru líður segir Magnea Þórey mikilvægt að umræðan um þetta fari fram.

„Þetta er eitthvað sem margir hafa vissulega skoðun á og menn eiga að hafa skoðun á þessu,“ segir hún.

„Þetta er eitthvað sem þarf að vinna vandlega, en það er ekki tækt að umræðan sé sú að það megi ekki ræða þetta — að þetta sé eitthvað tabú. Við þurfum að gæta okkar á forræðishyggjunni og taka þessa umræðu. Ef við rekum ríkið eins og fyrirtæki þá hljóta menn að vilja ná sér í auknar tekjur. Ferðaþjónustan gengur út á það að búa til störf og auka tekjur. Það er langtímamarkmiðið og þetta á vel heima þar.“