Afgangur rekstrar A-hluta Stykkishólmsbæjar á árinu 2015 var jákvæður um 16,8 milljónir króna. Rekstur samstæðunnar var þá jákvæður um 32,7 milljónir króna. Áætlun hafði gert ráð fyrir 62 milljóna afgangi af rekstri samstæðunnar.

Tekjur samstæðunnar milli ára jukust um 175 milljónir króna, úr 891 milljón króna í að vera 1,04 milljarður króna. Þetta kemur fram í ársreikningi bæjarfélagsins sem var birt í morgun. Rekstrargjöld jukust þá einnig og námu rúmum milljarði króna.

Eignir samstæðunnar, A- og B-hluta, námu þá 2,38 milljörðum króna. Þaðan af voru eignir bæjarfélagsins 982 milljónir króna og skuldir þess 1,4 milljarðar króna. Eiginfjárhlutfall samstæðunnar er þá 42%.

Veltuhlutfall bæjarfélagsins var þá 1,72 en álagningarhlutfall útsvars 14,37%. Íbúar á Stykkishólmi þann fyrsta desember 2015 voru 1.103 talsins en þeim hefur þá fækkað um fjóra milli ára. Íbúatala hefur haldist fremur stöðug síðustu fjögur árin.