Rekstur sveitarfélaganna er almennt að batna miðað við nýlegar upplýsingar Hagstofunnar.

Tekjur þeirra jukust um tæp 9% á milli ára á sama tíma og heildarútgjöld (fjárfestingar og vaxtagjöld meðtalin) jukust um rúm 5%. Á sama tíma hækkaði verðlag um 6%.

Greiningardeild Arion banka fjallar um málið í Markaðspunktum sínum í dag. Deildin bendir á að tölurnar byggi á afkomu stærstu sveitarfélaga landsins sem telja 80% af íbúafjöldanum. Afkoman er hins vegar ekki greind niður á ákveðin sveitarfélög. Þá snúa tölurnar eingöngu að sveitarsjóðunum (A-hluta) en ekki að fyrirtækjum í eigu sveitarfélaganna. Þá bendir greiningardeildin á það að tekjuafgangur er fyrst og fremst til kominn af því að fjárfesting af hálfu sveitarfélaganna er nú í lágmarki þó afkomubati fyrir fjárfestingar sé einnig að eiga sér stað.

Sveitarfélögin í fjárfestingarsvelti

Bent er á það í Markaðspunktunum, að ef fjárfestingar og vaxtagjöld eru dregin frá rekstrargjöldum (rekstrargjöld fyrir afskriftir), þá jukust rekstrargjöld sveitarfélaganna um liðlega 6% á öðrum fjórðungi ársins. Framlegð fyrir fjárfestingar og vaxtakostnað var þar með 11,5% af tekjum samanborið við 9,3% á sama fjórðungi í fyrra.

„Ef litið er nokkur ár aftur í tímann hefur ekki orðið stór breyting á vaxtagjöldum sveitarfélaganna, að því leyti að þau greiða tæplega 4% af tekjum í vexti. Hins vegar hefur orðið stórkostleg breyting í fjárfestingum sveitarfélaganna en á liðnum fjórðungi fjárfestu þau fyrir 6,5% tekna en það samsvarar um 3,8 mö.kr. og frá ársbyrjun 2011 hafa sveitarfélögin fjárfest fyrir 7% af tekjum sínum. Það samsvarar um 16 mö.kr. á ársgrundvelli. Til samanburðar vörðu sveitarfélögin að jafnaði 15% af tekjum sínum í fjárfestingar á hverjum ársfjórðungi yfir sjö ára tímabil þar á undan. Hér skal ekki fullyrt að tímabilið 2004-2010 gefi rétta mynd af eðlilegri fjárfestingarþörf sveitarfélaganna. Það gefur þó vísbendingu um að sveitarfélögin séu í fjárfestingarsvelti um þessar mundir. Sá böggull fylgir þó skammrifi að tekjujöfnuður upp á aðeins 1% af tekjum gefur ekki svigrúm til stóraukinna fjárfestinga. Höfum samt í huga að staða sveitarfélaganna er mjög mismunandi (sjá: Sveitarfélögin - mismunandi eins og þau eru mörg),“ segir í Markaðspunktunum.