*

mánudagur, 23. nóvember 2020
Innlent 29. október 2020 08:58

Rekstur Valitor batnað, en tapar enn

Rekstrartap Valitor nam 1,3 milljörðum á fyrstu 9 mánuðum ársins, en það er mun minna en á sama tímabili í fyrra.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Rekstur greiðslumiðlunarfyrirtækisins Valitor batnaði til muna milli ára þrátt fyrir heimsfaraldurinn í kjölfar fjárhagslegrar endruskipulagningar, samkvæmt árshlutareikningi Arion banka fyrir þriðja ársfjórðung sem birtur var í gær.

Endurskipulagningin átti sér stað í lok síðasta árs, en til viðbótar var starfsemi félagsins í Danmörku seld, ásamt rekstri svokallaðrar alrásalausnar í Bretlandi.

Rekstrarafkoma félagsins batnaði um 2,2 milljarða króna milli ára, að því er fram kemur, en þrátt fyrir það var hún neikvæð um 1.270 milljónir króna á fyrstu níu mánuðum ársins. Endanleg áhrif á Arion banka voru neikvæð um 694 milljónir að teknu tilliti til eignasölu félagsins. Rekstrartekjur námu 4,5 milljörðum króna á tímabilinu, eða 5 milljörðum með einskiptisliðum.

Valitor er enn í söluferli hjá bankanum, og er stefnt að því að salan geti gengið í gegn á næstu 12 mánuðum. Bókfært virði félagsins er nú 8,8 milljarðar króna, en var 6,5 milljarðar um síðustu áramót.

Stikkorð: Valitor