*

laugardagur, 20. júlí 2019
Innlent 3. mars 2013 11:25

Reksturinn batnaði verulega við kaup á Icelandic

Stjórnendur og stjórn High Liner Foods eru ánægð með rekstur fyrirtækisins í fyrra. Kaup á bandaríska hluta Icelandic juku sölu verulega.

Hallgrímur Oddsson
Tilkynnt var um sölu Framtakssjóðsins á icelandic í nóvember 2011. Þá kynntu Finnbogi Jónsson, þáverandi framkvæmdastjóri FSÍ, Þorkell Sigurlaugsson, formaður FSÍ, og Herdís Dröfn Fjeldsted, stjórnarformaður icelandic, viðskiptin fyrir blaðamönnum.
Birgir Ísl. Gunnarsson

Sala kanadíska sjávarafurðaframleiðandans High Liner Foods var ein sú mesta í sögu fyrirtækisins á síðasta ári. Sömu sögu er að segja af aðlöguðum hagnaði félagsins fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) og tekjum á árinu 2012. Bættar rekstrartölur eru raktar til kaupa High Liner á bandaríska hluta Icelandic. High Liner keypti bandaríska hluta félagsins af Framtakssjóði Íslands í desember 2011. Kaupverð var samtals 247,9 milljónir dollarar, eða um 30,2 milljarðar króna.

Hagnaður High Liner á síðasta ári nam um 2,2 milljónum Bandaríkjadala þrátt fyrir um 2,7 milljóna dala tap á síðasta ársfjórðungi 2012. Aðlöguð EBITDA jókst um 62,5% frá fyrra ári og nam alls 91,7 milljónum dala, jafnvirði um 11,6 milljörðum króna.

Framtakssjóður Íslands (FSÍ) seldi bandaríska hluta Icelandic til High Liner seint á árinu 2011. Með í kaupunum fylgdi tengd innkaupa- og framleiðslustarfsemi í Asíu. Með sölunni lauk fjárhagslegri endurskipulagningu Icelandic, sem komst í eigu Landsbankans og rann inn í FSÍ þegar sjóðurinn keypti Vestia eignarhaldsfélag af bankanum. Vestia heldur áfram um íslenska hluta Icelandic.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum Tölublöð hér að ofan.