Controlant er að verða með stærri og verðmætari fyrirtækjum landsins eftir ævintýrilegan vöxt í heimsfaraldrinum. Fyrirtækið var stofnað árið 2007 og hefur uppbyggingin tekið töluverðan tíma. „Það voru margar brekkur á leiðinni og það voru tímar sem við áttum í erfiðleikum með að borga laun. Á einhverjum tímapunkti vorum við mjög nálægt því að þurfa að segja upp stórum hluta starfsmanna. Fimm mínútum áður en við ætluðum að láta slag standa fundum við leið til að láta þetta ganga upp í nokkrar vikur í viðbót og svo náðum við fjármögnun fyrir næstu mánaðamót sem tryggði áframhaldandi rekstur Controlant," segir Gísli.

„Við höfum oft þurft að kaupa okkur tíma og taka að okkur verkefni út fyrir þá braut sem við höfum viljað fylgja til dæmis til að sýna fram á tekjuvöxt. Við erum með ákaflega þolinmóða fjárfesta, bæði hafa englafjárfestarnir og Frumtak stutt ótrúlega vel við bakið á okkur. En þetta hefur oft hangið á bláþræði," segir Gísli.

Engir stórir draumar í upphafi

Hugmyndin að baki lausn Controlant varð til í Háskóla Íslands. Trausti Þórmundsson, stundakennari í Háskóla Íslands, fékk þá Gísla og Erling Brynjúlfsson, sem þá voru að ljúka verkfræðinámi, með sér í að þróa skynjara til að mæla þrýsting í jeppadekkjum. Utan um þessa hugmynd stofnuðu þeir fyrirtækið Næmi, sem síðar fékk nafnið Controlant. Gísli fékk æskuvini sína, Stefán Karlsson og Atla Þór Hannesson, einnig inn í hópinn en hálfgerð tilviljun réð því að Gísli varð forstjóri fyrirtækisins.

Sjá einnig: Ótrúlegur uppgangur Controlant

„Við vorum ekki að spá í einhverjum viðskiptaáætlunum á þessum tíma og okkur langaði ekki í agað umhverfi þar sem við værum bara að vinna að mjög afmörkuðum verkefnum. Það sem heillaði okkur var nýsköpun og að búa eitthvað til," segir Gísli.

„Við sáum fljótt að markaðurinn fyrir skynjara fyrir dekk væri ekki stór og því erfitt að byggja upp fyrirtæki í kringum þá hugmynd. Í kjölfarið fórum við að velta fyrir okkur í hvaða átt við gætum þróað þessa þráðlausu skynjaralausn þar sem rafhlaðan dugir í mörg ár og hægt er að koma gögnunum upp í ský og fjarmæla hluti. Við kynntumst af tilviljun Bessa Gíslasyni lyfjafræðingi sem rak Lyfjaver en hann opnaði augu okkar fyrir möguleikunum á að nýta einmitt þessa tækni í lyfjageiranum."

Svínaflensan opnaði dyrnar

Fyrsta stóra verkefnið var samningur við Landlækni um eftirlit með bóluefni við svínaflensunni í faraldrinum árið 2009.

„Þá er lausnin okkar fyrst að taka á sig heildstæða mynd. Landlæknir fékk aukafjárveitingu og samdi við okkur um að setja upp búnaðinn okkar á allar heilsugæslustöðvar til að fylgjast með bóluefninu. Á þessum tíma hafði enginn gert þetta áður og ekkert miðlægt eftirlit var til staðar til að fylgjast með að hitastig og annað væri í lagi. Þarna kom lausnin okkar sér vel og við náðum mjög góðum árangri í þessu verkefni. Þarna opnuðust augu okkar fyrir mikilvægi þess að geta veitt réttar upplýsingar á réttum tíma og hvað það skipti miklu að við værum ekki bara að selja vélbúnað heldur líka að vinna með fólki og koma því í skilning um mikilvægi þess að bregðast við. Þarna var grunnurinn að Controlant í raun lagður og sú reynsla sem við öðluðumst er eitt af lykilatriðunum sem hefur skilað okkur þeim árangri sem við sjáum í dag.“

Vinna fyrir fimm af sex stærstu

Í kjölfarið bættust við fleiri verkefni innanlands og árið 2012 var Controlant farið að fylgjast með öllum íslenska lyfjamarkaðnum. Þá fór félagið í útrás til Skandinavíu og Bretlands.

„Það gekk ágætlega en okkur reyndist erfiðara að sannfæra stóru lyfjafyrirtækin um að taka upp lausnina okkar. Lyfjaiðnaðurinn er mjög íhaldssamur og það er mikil tregða til að vera fyrst til að taka upp tækninýjungar. Næstu fimm ár snerist okkar vinna um að mæta á sýningar og fræða iðnaðinn og í raun að tala aftur og aftur við fyrirtækin um lausnina okkar. „Fyrirtækin sem voru til í að prófa þetta sáu yfirleitt í tilraunaverkefnum að við vorum að bjarga vörum. Við vorum að bjarga vörum upp á mörg hundruð milljónir króna og jafnvel upp í 5-6 milljarða króna.“

Árið 2018 landaði félagið samningi við fyrsta lyfjarisann, Allergan. Í kjölfarið bættust við samningar við fimm af sex stærstu lyfjafyrirtækjum heims.

Nánar er rætt við Gísla Herjólfsson um uppgang Controlant í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .