Endurskoðunarfyrirtækið EY skilaði tæplega 45 milljóna króna hagnaði á síðasta rekstrarári, sem lauk nú í lok júní, samanborið við 70 milljónir króna árið á undan. Veltan var rúmur milljarður og breyttist lítið milli ára.

Margrét Pétursdóttir, forstjóri EY, segir uppbyggingu ráðgjafarhluta félagsins, með tilheyrandi kostnaði, skýra minni hagnað nú en í fyrra. Áhrif heimsfaraldursins og niðursveiflunnar, sem þegar var hafin þegar hann skall á, hafi hins vegar verið lítil. „Við höfum verið að breyta hjá okkur, byggja upp ráðgjöfina og fjárfesta.“

„Rekstur endurskoðunarfyrirtækja er almennt ekkert mjög sveiflukenndur. Það er þörf fyrir okkur þegar það er uppgangur, en það er þörf fyrir okkur líka á erfiðari tímum.“ Fyrirtæki hafi þó að einhverju leyti haldið að sér höndum með þá þætti sem geti beðið.

Margrét segir tekjur félagsins hafa vaxið jafnt og þétt í gegnum árin, en afkoman hafi vitanlega sveiflast eitthvað meira. Verkefnin séu ólík eftir aðstæðum í samfélaginu hverju sinni. „Þegar það eru góðir tímar, þá eru þetta fjárfestingar, samrunar og aðrir þættir sem tengjast vexti fyrirtækja og framþróun. Þegar það eru erfiðleikar eins og eftir hrun þá felst þetta í fjárhagslegri endurskipulagningu, sameiningum og hagræðingarverkefnum og fleiru slíku, jafnvel sviksemisrannsóknum. Kjarninn í starfseminni – endurskoðun, skattframtöl og reikningsskil – breytist hins vegar lítið.“

Margrét segir fjölhæfni starfsfólks hafa verið að aukast, sem gefist vel, þótt vissulega séu sumir áfram sérhæfðir á ýmsum sviðum. Starfsfólk kunni að meta fjölbreytni í verkefnum og það að fá víðtæka og breiða reynslu. „Það sem við erum að sjá núna, og höfum verið að vinna að, er aukin breidd í hæfileikum fólks, þannig að fólkið nái að þróast á breiðara sviði en áður og geti í meira mæli gengið í hvers annars verk. Þetta eykur samvinnu milli sviða og gerir störfin áhugaverðari.“

Margrét segir umræðuna í dag snúast mikið um langtímavirði fyrirtækja. „Það sem er verið að ræða núna er að það sé í raun og veru ekki nema svona fimmtungur eigna fyrirtækja talinn fram í þessum hefðbundna ársreikningi á efnahagsreikningi. Fyrirtækin búa yfir svo miklu meiri verðmætum.“

Þetta segir hún samræmast stefnu EY, um að styðja og bæta atvinnulífið, vel. „Við höfum náð að samhæfa þá stefnu þeirri þjónustu sem við veitum okkar viðskiptavinum.“

Hún segir áskorunina í dag einna helst vera þá að koma slíkum ófjárhagslegum upplýsingum til fjárfesta, og tekur dæmi af lífeyrissjóðunum. „Krafan á þá er að þeir stundi sjálfbærar fjárfestingar. Þeir hafa brugðist við því eftir bestu getu og leitast við að fjárfesta ekki í fyrirtækjum nema þau hagi sér almennilega.“

Nánar er fjallað um málið í Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, fylgiriti Viðskiptablaðsins sem kom út í morgun og unnið var í samstarfi við Kelduna. Blaðið er opið öllum og er hægt að nálgast pdf-útgáfu hér .