Háskólinn á Bifröst mun ekki eiga frumkvæðið að sameiningu við aðra háskóla, segir Vilhjálmur Egilsson rektor skólans. Hann segir að sameiningarviðræður milli Háskólans á Bifröst og Háskólans í Reykjavík hafi farið fram árið 2010 án niðurstöðu.

„Þessi mál þurfa alltaf að vera til skoðunar. En almennt séð held ég að það þurfi að gæta að þvi að það sé nægileg fjárhagsleg og fagleg samkeppni á þessum sviðum eins og öðrum í samfélaginu,“ segir Vilhjálmur í samtali við VB.is

Vilhjálmur segir enn fremur að sér hugnist ekki hugmyndir um að steypa háskólunum saman þannig að það verði bara einn ríkisháskóli sem sjái um 90-95% af háskólamenntun. Sú samkeppni sem hafi komið með Háskólanum í Reykjavík og Háskólanum á Bifröst sé til góðs og hafi verið til góðs fyrir alla

„Þetta skipulag á háskólum á Íslandi er ekkert eilíft frekar en annað. Allir skólarnir þurfa að standa sig í þessari samkeppni. Ef þeir eru ekki að finna fjölina sína og eru ekki sjálfbærir sem stofnanir þá hljóta þeir að veslast upp. Út frá sjónarhorni skólanna, þá verða þeir að standa sig í þessari samkeppni og veita nemendum þá menntun sem þeir þurfa,“ segir Vilhjálmur.

„Árið 2010 var farið í gegnum miklar sameiningaviðræður við HR sem gengu ekki upp. Síðan þá hefur Bifröst verið að vinna á eigin forsendum og ég reikna bara með að svo verði áfram,“ segir Vilhjálmur. Háskólinn á Bifröst muni í það minnsta ekki eiga frumkvæðið að neinum sameiningaviðræðum.

„Við erum bara að vinna okkar vinnu og erum bara fyrst og fremst að vinna að því að Bifröst verði áfram samkeppnishæfur háskóli og sé að veita nemendum góða menntun,“ segir Vilhjálmur. Auk þess verði unnið að því að efla rannsóknir og tengsl við atvinnullífið, einkum á Norðvesturlandi.

Illugi Gunnarsson, mennta- og menningamálaráðherra, hefur sagt í fjölmiðlum að hann vildi sjá sameiningu háskóla á kjörtímabilinu. Kristín Ingólfsdóttir, rektor HÍ, sagði í samtali við RÚV um helgina að nærtækast væri að HÍ og HR myndu sameinast.