Rakel Sölvadóttir, stofnandi Skema, lauk námi í tölvunarfræði frá Háskóla Íslands árið 1998. Þegar kreppan skall á var hún að vinna í bankageiranum í verðbréfamiðlunarkerfum sem var ansi líflegt fyrir hrun.

„Þetta var ekki að gefa mér neitt persónulega þótt vinnan hafi verið skemmtileg. Eftir fyrstu uppsagnarhrinuna bað ég um að lækka starfshlutfallið til að fara í nám. Fólki fannst ég klikkuð að þakka ekki bara fyrir að halda vinnunni. Ég vann því samhliða námi í sálfræði Í Háskólanum í Reykjavík. Þar small saman blanda af sálfræði og tölvunarfræði. Ég byrjaði á að gera tilraunir á börnunum mínum og unnum við Fræ ársins. Þá fengum við milljón í verðlaunafé sem dugði til að stofna félagið og koma okkur af stað. Fljótlega fórum við að halda námskeið og efla aðferðafræðina okkar.“

Rakel er stærsti hluthafinn í félaginu en með henni á Háskólinn í Reykjavík hlut og Þórólfur Rúnar Þórólfsson. „Við vinnum þétt með HR varðandi rannsóknavinkilinn. HR er öflugasti tækniskóli landsins og er kominn langt fram úr tölvunarfræði eða tækninámi í Háskóla Íslands. Þar er óbreytt námsskrá síðan ég útskrifaðist sem segir mikið. Það er gott að geta leitað til aðila innan HR hvort sem það tengist tækninámi, sálfræði, menntun eða stjórnun. Ari Kristinn Jónsson rektor hefur síðan verið persónulegur klettur fyrir mig sem er ómetanlegt. Ég hugsa að ég væri ekki sú sem ég er í dag ef ég hefði ekki fengið stuðning frá honum.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.