Með veftímaritinu °N Style Magazine vilja stofnendur gera skapandi greinar á Norðurlöndunum aðgengilegri fyrir alþjóðamarkað. Það var Soffía Theódóra Tryggvadóttir sem stofnaði blaðið en fyrsta tölublaðið kom út þann 3. desember. Auk netútgáfu blaðsins má daglega fylgjast með fréttum þess á vefsíðunni www.NordicStyleMag.com . Yfir 20 einstaklingar frá norðurlöndunum, sem nú eru staðsettir í sjö löndum, unnu að fyrsta tímaritinu.

„Við trúum því að tíska og hönnun frá Norðurlöndunum þurfi á meiri umfjöllun að halda,“ segir Soffía Theódóra. „Við viljum auka vitund Norðurlandabúa á norrænum merkjum ásamt því að vekja áhuga á heimsvísu á rótgrónum og nýjum norrænum merkjum“.

Soffía segist finna fyrir miklum áhuga á Norðurlöndunum sem þyki framandi og spennandi. Það sama gildi um tísku og hönnun þaðan. „Tísku- og hönnunarmerki ættu að nýta þann áhuga og tengja sig við uppruna sinn,“ segir Soffía. „Við trúum því að það að vera þekktur fyrir að vera frá Norðurlöndunum gefi forskot í þessum geira í dag.“