Poul Nyrup Rasmussen, fyrrum forsætisráðherra Danmerkur, reynir nú ákaft að fá Evrópuþingið til að styðja hugmyndir sínar um hertar reglur um starfsemi áhættu- og vogunarsjóða. Rasmussen telur að með því að þrengja að starfsemi sjóðanna og fjárfesta í Evrópu geti ríki Evrópusambandsins varið sig gegn helstu neikvæðu áhrifum óróans á fjármálamörkuðum og komið í veg fyrir að þau sökkvi í langvinna kreppu.

Aukið gagnsæi og opnari viðskiptahættir

Hugmyndir Rasmussen byggja á fjórum meginstoðum:

Viðskipti þessara aðila á fjármálamarkaði verði opnari og gagnsærri en nú tíðkast og þannig í samræmi við önnur hlutabréfaviðskipti.

Eftirlit verði hert til að tryggja gagnsæi og kostnaðarhagkvæmni og koma í veg fyrir kreppur á fjármagnsmarkaði í framtíðinni.

Komið verði í veg fyrir hagsmunaárekstra og markaðsmisnotkun.

Vöxtur og viðgangur viðskiptalífsins verði tryggður til langs tíma og réttindi launþega.

Telur Rasmussen að ef þessar hugmyndir verði að veruleika, og miðar hann við að Danmörk verði í hópi fyrstu landa til að taka þær upp, verði stoðir efnahags- og viðskiptalífsins styrkari og minna hætta á ófyrirséðum sveiflum.