Í morgunkorni Glitnis segir að þýski bankinn Rentenbank hafi gefið út krónubréf fyrir fjóra milljarða og með því blásið glæðum í krónubréfaútgáfuna sem hefur verið með daufasta móti undanfarið.

Útgáfa Rentenbank er með gjalddaga þann 17. júní 2009 og ber 13% vexti. Rentenbank hefur alls gefið út krónubréf fyrir 15 milljarða króna en þar af eru 11 milljarðar enn útistandandi. Alls eru krónubréf að nafnvirði 371,5 milljarða króna útistandandi sem nemur um það bil 30% af landsframleiðslu síðasta árs.

Von á fleiri útgáfum
Þrátt fyrir að allar ytri aðstæður til útgáfu krónubréfa séu með besta móti í kjölfar vaxtahækkunar Seðlabankans hafa ekki verið gefin út krónubréf síðan þann 15. október þegar IBRD, ein af stofnunum Alþjóðabankans, stóð fyrir 2.milljarða krónu útgáfu. Alls hafa verið gefin út krónubréf fyrir 8 milljarða króna á 4. ársfjórðungi en 12,4 milljarðar króna gjaldfalla á tímabilinu. Greiningadeild Glitnis telur að þrátt fyrir óvissu á mörkuðum og vaxandi áhættufælni sé enn von á einhverri útgáfu til viðbótar það sem eftir lifir ársins. Reynslan gefur til kynna að flestar þær útgáfur sem falla á gjalddaga séu framlengdar með nýjum útgáfum og þá ætti hátt vaxtastig einnig að skapa hvata fyrir frekari útgáfu krónubréfa, segir í Morgunkorninu.

Neikvæð stemmning á mörkuðum
Þar segir einnig að útgáfan í gær hafði lítil áhrif á krónuna sem veiktist um 1,46% í viðskiptum gærdagsins. Krónubréfaútgáfur hafa í gegnum tíðina oft lyft gengi krónunnar upp á við en nú á við ramman reip að draga þar sem markaðir hafa verið í lægð undanfarna daga. Ástæðan er fyrst og fremst mikil óvissa á erlendum mörkuðum sem hefur áhrif á markaði hér heima. Tilkynning Standard & Poor´s um breyttar horfur lánshæfis ríkissjóðs kom á slæmum tíma fyrir markaði og á eflaust einhvern þátt í þeirri neikvæðu stemmningu sem ríkt hefur á innlendum mörkuðum síðustu daga, samkvæmt því sem segir í Morgunkorni Glitnis.