Hugbúnaðarfyrirtækið Reon ehf. hefur keypt allt hlutafé í ráðgjafafyrirtækinu Vínber (Vínviður ehf.), sem sérhæfir sig í vefverslunum og markaðssetningu á netinu. Nafni félagsins hefur jafnframt verið breytt í Koikoi ehf. og mun starfa undir nýju vörumerki en ekki er stefnt á að félögin verði sameinuð.

Koikoi stefnir á að verða þekkingarfyrirtæki af nýrri tegund, sérhæft í ráðgjöf og sölu á vörum og þjónustu á netinu, en yrirtækið er samstarfsaðili Shopify vefverslanakerfisins og Klaviyo tölvupóst sölukerfisins.

Hörður Ellert Ólafsson
Hörður Ellert Ólafsson
© Saga Sig (Saga Sig)
Hörður Ellert Ólafsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri félagsins. Hann lærði frumkvöðlafræði og fyrirtækjaþróun í Kaospilot skólanum í Danmörku, með áherslu á stafræna sölu og markaðssetningu, ásamt því að hafa diplóma í stafrænni markaðssetningu frá Háskólanum í Reykjavík. Hörður hefur áður komið að stofnun og rekstri fyrirtækja, þar á meðal Inhouse, Nostra veitingahúss, Mótherja og Syndis.

„Í grunninn þá sérhæfum við okkur í að hjálpa fyrirtækjum að vaxa, hvort sem þau eru að taka sín fyrstu skref í stafrænni vegferð, að breyta/skipta um sölukerfi eða í verkefnum til að besta markaðs- og sölustefnur sínar,“ segir Hörður Ellert. „Til þess nýtum við þekkingu okkar og reynslu í uppsetningum á vefverslunum og stefnumótun í stafrænni markaðssetningu.”.

Einar Thor
Einar Thor
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Einar Thor var einn af lykilráðgjöfum Vínbers og mun hann stýra ráðgjafateymi Koikoi. Einar er með A.P. gráðu í alþjóðlegri sölu og markaðsfræði með áherslu á frumkvöðlafræði frá Niels Brock ásamt því að hafa diplóma í stafrænni markaðssetningu frá Háskólanum í Reykjavík og altMBA frá Seth Godin.

Einar starfaði áður sem verkefnisstjóri í markaðsdeild Festi og hefur umfangsmikla reynslu af markaðssetningu á netinu og stýringu á stærri vefverkefnum fyrir fyrirtækjasamstæðu Festi, (Elko, Krónan, Nóatún, Intersport) og þar áður yfir stafrænum markaðsmálum auglýsingastofunnar Expo hluti af Norvík.

„Fyrirtæki í dag þurfa að setja sér háleitari markmið þegar það kemur að því að markaðsetja og selja vörur á netinu og veita betri upplifun fyrir viðskiptavina sína,” segir Einar.

„Það sem fyrirtæki skortir er hraði og þor til til að gera tilraunir á sínum eigin miðlum. Fyrirtæki almennt hafa slæma yfirsýn yfir hvaða hlutir eru að virka og ættu að vera virkari í að láta gögn leiða sig áfram í ákvörðunartöku.“

Reon er eins og áður segir hugbúnaðarfyrirtæki sem sérhæfir sig í stafrænni vöruþróun og segir Elvar Örn Þormar, framkvæmdastjóri Reon, kaupin vera lið í stefnu félagsins að styrkja þekkingargrunn sinn og hafa aðgang að sérfræðingum sem eru fremstir á sínu sviði í sífellt vaxandi heimi netsölu.

„Breytt eignarhald og samstarf á milli Koikoi og Reon gerir okkur kleift að þjónusta viðskiptavini okkar betur, útfæra sérlausnir sem áður voru einungis í boði fyrir stórfyrirtæki og á sama tíma mæta þörf sem við höfum orðið vör við á markaðnum,” segir Elvar.