Repúblikanar unnu ekki bara sigur í forsetakosningunum í Bandaríkjunum með kjöri Trump heldur héldu þeir einnig meirihlutum sínum í efri- og neðri deildum bandaríska þingsins.

Í þeirri neðri, hinni svokölluðu fulltrúadeild náðu Demókratar átta þingsætum af Repúblikönum, en allt stefnir í að Repúblikanar haldi 239 sætum á móti 196 sætum Demókrata.

Demókratar geta enn haldið úti málþófi

Í efri deildinni, öldungadeildinni, hafa Repúblikanar haft meirihluta með 54 sætum á móti 46, en kjörtímabilið þar er sex ár. Minnihlutanum þar dugir 41 þingsæti til að stöðva mál með málþófi eða hótun um málþóf, en hægt er að stöðva það með 60 þingsæta meirihluta.

Virtist á tímabili sem Repúblikanar ættu á hættu að missa meirihluta sinn í deildinni, en Repúblikanar þurftu að verja 24 sæti á móti 10 sætum Demókrata sem kosið var um.

Rubio og McCain héldu sínum sætum

Einungis er kosið um þriðjung þingsætanna í öldungaráðinu í kosningum í landinu sem eru á tveggja ára fresti, en kosið er um öll sætin í neðri deildinni en kjörtímabilið þar er tvö ár.

Náðu hvorir tveggja keppinautur Trump um útnefningu Repúblikana í forsetaembættið, Marco Rubio í Flórída og hinn áttatíu ára gamli John McCain í Arizona að halda sínum öldungaráðssætum.