Félög sem styðja Repúblíkanaflokkinn í Bandaríkjunum munu hefja umfangsmikla auglýsingaherferð í vikunni. Er þetta lokasóknin til að tryggja flokknum meirihluta í fulltrúadeild bandaríska þingsins.

Er þetta dýrasta herferð sem félög sem styður stjórnmálaflokk í Bandaríkjunum hafa farið út í, en kostnaðurinn er talinn nema 50 milljónum dala eða sem svarar 5,5 milljörðum króna. Kostnaðurinn við herferðina er meiri en sem nemur öllum kostnaði Repúblíkanaflokksins sjálfs í sjónvarpsauglýsingar vegna kosningabaráttunnar.

Félögin sem um ræðir nefnast American Crossroads og Crossroads GPS og er Karl Rove talinn standa að baki fyrrnefnda félaginu en hann var ráðgjafi George Bush í Hvíta húsinu. Fjárhagslegur styrkur framboða er talinn veruleg vísbending um gengi í kosningum í Bandaríkjunum. Má í því sambandi nefna að Barack Obama safnaði mun meiri peningum en John Mccain er þeir börðust um forsetaembættið 2008. Að sama skapi safnaði George Bush meiru en John Kerry árið 2004.