Undirritaður hefur verið samningur milli RES orkuháskólans (School for Renewable Energy Science) á Akureyri og Toyota á Íslandi um samstarf er lýtur að nýtingu tvinntækninar í bifreiðum.

Toyota kynnti fyrstu fjöldaframleiddu tvinnbifreiðina, Toyota Prius fyrir um 10 árum, en tæknin er notuð í fjölda bifreiða frá Toyota og Lexus.  RES orkuháskólinn hefur nú yfir tveimur Toyota Prius tvinnbílum að ráða.

„Þar sem tvinntæknin í bifreiðum er gott dæmi um það hvernig orka er betur nýtt en almennt gerist viljum við vekja athygli á henni. Þessum upplýsingum verður m.a. miðlað í námskeiðum í alþjóðlegu meistaranámi í endurnýjanlegum orkufræðum (M.Sc. Renewable Energy Science), í alþjóðlegum sumarnámskeiðum fyrir B.Sc. nema (Sumarskóli RES), og á námskeiðum á vegum Leiðtogaskóla RES fyrir stjórnendur alþjóðlegra fyrirtækja og stofnanna“ segir dr. Björn Gunnarsson, rektor RES orkuháskólans í tilkynningu.