Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn greip ekki til sinna hefðbundnu neyðaráætlana þegar sjóðurinn kom Íslandi til aðstoðar eftir hrun bankakerfisins. Hagkerfið var ekki látið dragast jafn mikið saman og venjan er auk þess sem gjaldeyrishöftum var komið á. Þetta segir Joseph Stiglitz, nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, en myndband með ummælum hans var sýnt á ráðstefnu AGS og stjórnvalda sem nú stendur yfir í Hörpu. Hann telur líklegt að enn betra hefði verið að skera ekki jafn mikið niður og gert hefur verið. Stiglitz hefur lengi verið harður gagnrýnandi AGS.

Stiglitz sagði jafnframt að rétt hafi verið að láta þjóðina ekki taka á sig byrðarnar vegna Icesave. Þá bætti hann því við að þó til mikils hafi verið unnið sé kreppan ekki búin og ýmis vandamál framundan.