Fjöldi farþega sem fer um Keflavíkurflugvöll mun ekki ná sama stigi og árið 2019 fyrr en eftir þrjú ár, gangi bjartsýnasta spá Isavia eftir. Þetta kemur fram í nýrri samantekt Isavia en tekið er fram að mikil óvissa ríkir enn um framtíðina.

Rúmlega 7 milljónir farþegar fóru um völlinn árið 2019 en í fyrra voru þeir aðeins 1,3 milljónir í samdrættinum vegna faraldursins. Sviðsmyndir félagsins gera ráð fyrir að þeir verði um 2,2 milljónir í ár, á bilinu 4-5 milljónir á næsta ári, 4-6 milljónir 2023 og síðan á bilinu 5,5-7,9 milljónir árið 2024.

Gangi bjartsýnasta spáin fyrir árið 2024 eftir þá verða farþegar um Keflavíkurflugvöll verða tæpar 7,9 milljónir talsins yrði það þriðji mesti farþegafjöldi sem farið hefur um flugvöllinn á einu ári. Farþegar voru fleiri árin 2017 og 2018.

Sjá einnig: Fjöldi ferðamanna undir spám

Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri viðskipta og þróunar hjá Isavia, segir í fréttatilkynningu að þrátt fyrir að nær ómögulegt sé að spá fyrir um þróun mála á þessum tímapunkti, þá auðveldi sviðsmyndirnar rekstraraðilum á flugvellinum að gera áætlanir fram í tíma.

„Rétt er þó að hafa í huga að lítið má í raun út af bregða til að þessar spár rætist ekki,“ segir Guðmundur Daði. „Endurheimt flugfarþega um Keflavíkurflugvöll þarf að vera hraðari en í sumar og haust. Harðar og síbreytilegar sóttvarnaraðgerðir á landamærunum fæla erlend flugfélög frá landinu. Þessi þróun er mikið áhyggjuefni. Flugtengingar tapast eða þeim fjölgar a.m.k. ekki en þessar tengingar eru mikilvæg forsenda lífsgæða á Íslandi.“

Guðmundur Daði bendir á að sumarið hafi gengið vel á Keflavíkurflugvelli - endurheimtin verið betri en á samkeppnisflugvöllum annars staðar í heiminum.

„Keflavíkurflugvöllur hefur í ár endurheimt 79% þeirra áfangastaða sem voru í boði 2019 samanborið við 72%  í Kaupmannahöfn, 71% í Osló, 67% í Stokkhólmi og 59% í Helsinki. Mikilvægt er að glutra þessu ekki niður nú þegar vel gengur.“

Sviðsmyndir Isavia yfir fjölda farþega um Keflavíkurflugvöll.