Ekki er ljóst hvaða vitni þarf að kalla fyrir dóm í máli embættis sérstaks saksóknara gegn níu fyrrverandi starfsmönnum Kaupþings. Fyrirtaka var í málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær og þar ákveðið að verjendur sakborninga fá frest til 28. október næstkomandi til að skila greinargerðum. Fram kemur í Morgunblaðinu í dag að stefnt sé á að aðalmeðferð í málinu hefjist 19. janúar á næsta ári og standi hún í þrjár vikur.

„Þetta verða ógurlegar setur,“ hefur blaðið eftir Arngrími Ísberg, dómsformanni í málinu.

Sakborningar eru þeir Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, Sigurður Einarsson, sem var stjórnarformaður bankans, Ingólfur Helgason, forstjóri Kaupþings á Íslandi, Einar Pálmi Sigmundsson, sem var yfir eigin viðskiptum bankans, Magnús Guðmundsson, sem var bankastjóri Kaupþings í Lúxemborg, Bjarki H. Diego, framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Kaupþings, Birnir Sær Björnsson og Pétur Kristinn Guðmarsson, fyrrverandi miðlarar hjá eigin viðskiptum Kaupþings, og Björk Þórarinsdóttir, sem sat í lánanefnd Kaupþings og sat auk þess á fyrirtækjasviði. Þeim er gefið að sök að hafa í sameiningu stundað markaðsmisnotkun með hlutabréf sem bankinn gaf út. Í ákæru embættis sérstaks saksóknara segir að mörg brotanna hafi verið þaulskipulögð og staðið yfir í langan tíma.