Ef skoðuð eru félög sem eru, eða hafa verið, skráð í norrænu kauphallirnar á þriggja ára tímabilinu frá 31. júlí árið 2003 til 31. júlí síðastliðinn kemur í ljós að 13 félaganna hafa hækkað yfir 1.000%, segir greiningardeild Kaupþings banka.

?Mest hækkaði félagið PA Resources eða um 4.244% en félagið, sem er skráð í kauphöllina í Osló stundar olíuleit og framleiðslu. Næst mest hækkuðu bréf í Altinex eða um 2200% en félagið er líkt og PA Resources skráð í kauphöllinni í Osló. Altinex selur vörur og þjónustu til félaga sem starfa í olíu- og gasframleiðslu. Ef litið er til íslensku Úrvalsvísitölufélagana þá hækkaði Landsbankinn mest á umræddu tímabili eða um 425%," segir greiningardeildin.

Þrátt fyrir sveiflur á nærrænum mörkuðum á árinu, hækkuðu 13 félög sem skráð eru í norrænum kauphöllum yfir 100% á fyrstu sjö mánuðum ársins.

?Það félag í íslensku kauphöllinni sem mest hækkaði á fyrstu sjö mánuðum ársins var Atlantic Petroleum, eða um rúm 28%. Af öllum félögum skráðum í norrænum kauphöllum hækkaði mest félagið Danionics. Félagið er skráð í kauphöllinni í Kaupmannahöfn og framleiðir rafhlöður og leggur þá sérstaka áherslu á lithium-ion batterí sem til dæmis eru notuð í fjölda síma og fartölva. Næst á eftir Danionics hækkaði svo félagið Pan Fish eða um 234%. Pan Fish ræktar eldislax en verð á eldislaxi hefur að undanförnu verið mjög hátt og drífur það að miklu leyti þá hækkun sem orðið hefur á félaginu það sem af er ári," segir greiningardeildin.

Vísitölur

Hún segir að á þriggja ára tímabili frá 31. júlí 2003 til 31. júlí í ár hækkaði íslenska úrvalsvísitalan mest allra norrænna úrvalsvísitalna eða um 248% ?Á sama tíma hækkaði norska OBX vísitalan um 140%, danska KFX um 72%, sænska OMX um 66% og finnska HEX um 60,8%," segir greiningardeildin.