Í dag á þrettánda degi jóla verður kveikt í þremur brennum í Reykjavík: við Gufunes, Ægisíðu og Reynisvatn. Flugeldasýning verður í Gufunesi. Brennur eru í flestöllum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu.

Þrettándabrenna verður á vegum Miðgarðs kl. 17.00 við gamla Gufunesbæinn og þar verður einnig skoteldasýning klukkan 18.00. Kveikt verður í þrettándabrennu á vegum Foreldrafélaga grunnskólana í Vesturbæ klukkan 17.00 og þriðja brennan er á vegum Lionsklúbbsins Úlfars við Reynisvatn austan við Sæmundarskóla í Grafarholti klukkan 18.00. Strangar reglur gilda um brennur og sérvelja starfsmenn Reykjavíkurborgar efnið og raða í bálkestina en einungis er leyfilegt að nota pappa og timbur í brennur og þess háttar brennuefni.

Af öðrum þrettándabrennum á höfuðborgarsvæðinu má nefna að kveikt verður í brennum á Seltjarnarnesi, í Kópavogi, Hafnarfirði og Mosfellsbæ og á Álftanesi. Skoteldasýningar verða einnig í Mosfellsbæ, Hafnarfirði og Kópavogi.

Þrettándi jólasveinninn hverfur á braut í dag og eftir þjóðtrúnni að dæma tala kýr mannamál á þrettándanum. Þá fara selir úr hömum sínum og álfar flytjast búferlum.