Í dómi Héraðsdóms frá því á föstudag kemur meðal annars fram það álit að samkvæmt 1. málsgrein 77. greinar íslensku stjórnarskrárinnar, og öðrum greinum hennar, megi ekki fela stjórnvöldum ákvörðun um skattlagningu.

Í dómnum segir meðal annars: "Af þessu leiðir að þótt það samræmist vel stjórnarskránni að veita ríkisstjórn heimild til að skuldbinda íslenska ríkið að þjóðarétti með gerð þjóðréttarsamninga, verður löggjafinn sjálfur að ákveða hvort og hvernig þessa samninga skuli leiða í íslensk lög."

Þrátt fyrir að þetta álit dómsins hafi ekki skipt sköpum fyrir niðurstöðu málsins bendir sérfræðingur í skattarétti á að þetta álit staðfesti þá réttaróvissu sem ríkt hefur um gildi tvísköttunarsamninga. Réttaróvissan felst í því að áhöld eru um að beiting slíkra samninga við skattlagningu standist stjórnarskrá. "Það hefur verið bent á þessa óvissu og ljóst er að þeir mikilvægu hagsmunir sem tvísköttunarsamningar kveða á um eru í uppnámi," segir Jón Elvar Guðmundsson, skattasérfræðingur hjá Logos.

Hann bendir á að tvísköttunarsamningar séu Íslendingum mikilvægir, sérstaklega þeim fyrirtækjum og einstaklingum hér á landi sem afla tekna í öðrum ríkjum og jafnframt þeim útlendu aðilum sem hafa áhuga á að fjárfesta á Íslandi. "Á þessa óvissu hefur verið bent og það er óþolandi fyrir viðskiptalífið að um réttaróvissu á þessa sé fyrir hendi," segir Jón sem færði rök fyrir þessari skoðun í fræðiritgerð sem skrifaði ásamt Gunnari Gunnarssyni, skattasérfræðingi og birtist í lögfræðitímaritinu Lögréttu á haustmánuðum.

Ragnheiður Snorradóttir, skrifstofustjóri tekju- og lagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins, tekur ekki undir þá skoðun að niðurstaða dómsins um að þeir tvísköttunarsamningar sem hann tekur til hafi ekki verið leiddir í íslensk lög með fullnægjandi hætti hafi áhrif á framkvæmd tvísköttunarsamninga: "Um er að ræða almenna hugleiðingu dómarans sem hafi hvorki áhrif á niðurstöðu málsins né á gildandi tvísköttunarsamninga sem íslenska ríkið hefur gert."