Halldóra Þorsteinsdóttir, lektor við lagadeild Háskólans í Reykjavík, segir réttarstöðuna ekki alveg skýra hvað varðar það hver bæri tjónið í máli á borð við mál Glófaxa – sem sagt var frá í gær – ef á reyndi hér á landi, þar sem ekki megi finna almennt og afgerandi svar í íslenskum lögum. Horfa þurfi á hvert tilvik fyrir sig og taka tillit til þátta eins og aðstöðumunar, aðgæsluskyldu og tæknilegrar hliðar málsins.

Í stuttu máli snýst málið um það að tölvuþrjótar komust inn í tölvukerfi hollensks fyrirtækis sem Glófaxi átti í viðskiptum við, og breyttu tölvupóstum og PDF-skjölum sem fóru þeirra á milli. Þannig tókst þeim að láta Glófaxa millifæra greiðslu fyrir vörur á rangan reikning, en hollenska fyrirtækið halda að peningurinn hefði borist þeim. Hollendingarnir fóru í kjölfarið fram á að Glófaxi greiddi reikninginn aftur, en því hafnaði fyrirtækið, og segir þá einfaldlega verða að höfða dómsmál.

Góð trú og aðgát hugsanlega nóg
Halldóra segir almennu regluna vissulega þá að greiðandi þurfi að greiða réttum aðila, en hafi hann greitt í góðri trú þeim sem hann taldi vera réttur aðili, og sýnt fullnægjandi aðgát, kunni það að teljast nægjanlegt. Hafi hann hinsvegar mátt vita að ekki væri allt með felldu þegar tilkynnt var um breytt reikningsnúmer, svo sem vegna óvenjulegra samskipta eða annarra vísbendinga um brögð í tafli, sé hugsanlegt að honum yrði gert að bera hallann af gáleysinu.

Annað sem vegið geti þungt bæði í þessu tiltekna máli og almennt, segir hún vera hvorum aðilanum netþrjótarnir hafi brotist inn hjá. Sífellt séu gerðar ríkari kröfur um tölvuöryggi hjá fyrirtækjum eftir því sem tækninni fleygir fram og netglæpir verða tíðari og alvarlegri.

Að lokum geti aðstæður hvors aðila fyrir sig, og sá aðstöðumunur sem í þeim geta falist, komið til álita. Sem dæmi séu almennt gerðar ríkari kröfur um netöryggi og verkferla hjá stærri fyrirtækjum, sem hafi meiri burði til að sinna slíkum málum. Viðskiptavinir þeirra megi því búast við að varnir þeirra séu öflugri og verkferlar óskeikulli.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .