Framkvæmdastjóri og aðaleigandi Bako Ísberg, sem selur og rekur stórheldhús, horfir brattur fram á við þó að 70% minnkun sé í eftirspurn þennan mánuðinn, enda búi hann að því að hafa þegar skorið alla fitu úr rekstrinum. Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í gær rak Bjarni, og átti lengi Epli, umboðsaðila Apple á Íslandi, en þar áður rak hann meðal annars Humac sem var með Apple umboðið á Norðurlöndunum, og seldi sig þar út, kom aftur inn og seldi loks á ný.

Spurður út í verkefnastöðuna hjá Bako Ísberg framundan og hvernig þessir mánuðir horfa við honum nú segist hann nokkuð brattur þrátt fyrir allt.

„Við fundum fyrir því að farið var að hægja á allt síðasta ár, og svo í desember var eins og það væri farið að hægjast enn meira á þessu, en síðan var janúar allt í lagi. Febrúar var svo búinn að vera lélegur, mars allt í lagi, en svo er apríl bara strax 70% niður og maí verður 60% niður geri ég ráð fyrir miðað við verkefnastöðuna. Ég held við verðum bara alveg í núllinu á þessum tveimur mánuðum," segir Bjarni sem ekki segist geta treyst á þjónustusamninga eða pantanastöðu langt fram í tímann.

„Ég er með mikið af svona kannski verkefnum, en ekkert sem við erum með alveg fast í hendi, og það gæti verið að við munum sitja uppi með verkefni sem farið var af stað með en menn verði ekki tilbúnir að taka við. Við erum ekki með neina þjónustusamninga af viti til að treysta á, kannski hjá stóru fyrirtækjunum, símafyrirtækjum og bönkum og svona, en alla vega ekki hjá veitingastöðunum, þar sem allt er bara stopp og enginn þar inni, í mörgum tilfellum.

Það er mikil þjónusta í kringum stóreldhús sem við sinnum, ýmiss konar tækniþjónusta enda helmingurinn af fyrirtækinu tæknimenn, og það er líka alltaf þannig að eftir því sem minna er endurnýjað af tækjabúnaðinum, þá bara eykst þörfin á slíkri þjónustu. Það getur nefnilega allt bilað, og ef endurnýjunarhraðinn verður hægari þá er bara meira viðhald á móti."

Bjarni leggur áherslu á að nú sé því akkúrat tíminn til að fara í fyrirbyggjandi viðhald í stóreldhúsum og jafnvel huga að endurnýjunum.

„Því þegar ballið byrjar aftur þá mun ég ekkert hafa mannskap í þetta allt, þá verður bara uppselt, eins og gerist þegar skólarnir opna til dæmis á haustin, því þá er mikið bilað eftir að starfsemin er búin að vera stop í svolítinn tíma. Síðan er önnur hlið á þessu sú að við kaupum mikið af okkar vörum frá Ítalíu, og þeir eru hreinlega í framleiðslubanni. Við sjáum til dæmis að allir pottar og pönnur eru því sem næst búin hjá okkur, og við höfum enga leið til að loka því gati," segir Bjarni.

„Við erum líka með vefverslun og hún hefur verið að taka stór stökk, ég held við höfum selt þar fyrir um 2 milljónir allt árið í fyrra en nú þegar er það komið í 6 milljónir í ár.  Allt í einu er fólk að kaupa hefkörfur, sem eru svona tákörfur sem brauðið er lagt í til að hefast, en einnig hnífa og annað svona dót sem það vill nota í eldhúsið heima. Svo er það að kaupa djúpsteikingarpotta til að gera kleinur, það er allt brjálað að gera á heimilunum núna. Við höfum verið að horfa meira inn á heimilismarkaðinn, en við höfum bæði verið að sendast með þessar vörur sem og fólk hefur pantað og komið og náð í þær ef því liggur á."

Tækniþróunin hröð síðustu fjögur árin

Bjarni segir einmitt tækniþróunina, sem nú er að gerast svo hratt, vera það sem heilli við þann bransa sem Bako Ísberg er í.

„Tæknin hefur verið að aukast mjög mikið í stóreldhúsum og matvælagerð síðustu þrjú til fjögur árin, því nú er hægt að elda mismunandi mat, mishratt og með mismiklum hita á mismunandi hæðum í þessum stóreldhúsaofnum, sem hægt er að forrita inn í þá með einföldum hætti. Ég man þegar ég sá þetta fyrst þá tóku menn bara kjúkling og settu hann inn í ofninn og eftir korter kom þvílíkt djúsí kjúklingur út, sem tæki mig alltaf rúman klukkutíma heima hjá mér að ná," segir Bjarni.

„Við erum einmitt með það merki sem er hvað mest leiðandi í tækninni, hið þýska gæðamerki Rational en ég er að því leytinu til heppinn með þetta merki að örugglega annar hver ofn á landinu er frá þessum gaurum og margir eru enn með gamla ofna. Að kaupa svona ofn er eins og að kaupa sendibíl sem þrífur sig sjálfur, því eftir daginn er nóg að setja bara eina sáputöflu undir hann og þá þrífur hann sig bara yfir nóttina í staðinn fyrir þegar fólk þurfti að taka dýrmætan tíma í þetta, setja á sig hanska og þrífa með einhverjum efnum.

Síðan er að koma ný kynslóð af þessum ofnum í maí, en þá þarf kokkurinn ekki einu sinni að vera á staðnum heldur getur sett prógrammið upp á spjaldtölvu eða einhverju heima um kvöldið, og haft þar yfirlit yfir hvernig þetta gengur, sem og hvort verið er að setja þá í þrif á nóttunni, og svo framvegis. Nú þegar er hægt að skipta milli tungumála þannig að prógrammið um hvað fer inn í hvaða ofn hvenær og hvað fer út er sett inn á einu tungumáli, en hægt að láta, til dæmis ef starfsmaðurinn í eldhúsinu er pólskur, koma á pólsku á ofninum."

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .