*

mánudagur, 22. júlí 2019
Innlent 3. október 2016 17:05

Réttindi sjóðfélaga ekki tryggð

BSRB segir breytingar á Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins muni ekki tryggja réttindi núverandi sjóðfélaga.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Stjórn BSRB segir breytingu á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins ekki endurspegla samkomulag um að tryggt verði að réttindi núverandi sjóðfélaga verði jafnverðmæt fyrir og eftir breytingarnar.

Skrifað var undir samkomulagið 19. september síðastliðinn milli heildarsamtaka opinberra starfsmanna og fulltrúa ríkisins og sveitarfélaga.

Munu ekki styðja frumvarp ef því verði ekki breytt samkvæmt tillögum

Leggur BSRB til breytingar á frumvarpinu og segjast samtökin ekki munu styðja frumvarpið án þeirra. Í fréttatilkynningu samtakanna segir:

„Tryggja þarf að réttindi sjóðfélaga í A-deild LSR verði jafn verðmæt eftir breytingar á skipan lífeyrismála. Skýrt þarf að vera að þar sé átt við réttindi þeirra sem eru að greiða í sjóðinn eða hafa greitt í sjóðinn, sem og þeirra sem hafa hafið töku lífeyris.“

„Tryggja þarf að hafi sjóðfélagi unnið sér inn rétt til lífeyrisauka haldist sá réttur þrátt fyrir að viðkomandi skipti um starf, haldi hann áfram aðild að A-deild LSR.“

„Útlista þarf nákvæmlega hvernig iðgjaldagreiðslum annarra launagreiðenda en ríkis og sveitarfélaga verður háttað eftir breytingar.“

„Kveða þarf skýrt á um að ef sú upphæð sem sett hefur verið í varúðarsjóð dugi ekki til, sé það hlutverk opinberra launagreiðenda að bregðast við.“

Lýsir stjórn BSRB yfir vonbrigðum með að ekki hafi verið farið eftir samkomulaginu sem var undirritað og skora samtökin á þingmenn að gera breytingar til að verja áunnin réttindi sjóðfélaga í lífeyrissjóðum opinberra starfsmanna.