Stjórnvöld í Kína hafa stigið áður óþekkt skref með nýju inngripi í stjórnskipun sjálfstjórnarhéraðsins Hong Kong með því að meina tveim kjörnum fulltrúum að taka sæti sitt á þingi héraðsins.

Þingfulltrúarnir Sixtus Leung og Yau Wai-ching koma frá Youngspiration flokknum, sem sprakk upp úr mótmælum lýðræðissinna árið 2014, en þau hafa hvatt til þess að Hong Kong lýsi algerlega yfir sjálfstæði.

Neituðu að taka undir hollustueið við Kína

Héraðið var áður undir breskri stjórn og átti samkvæmt samkomulagi Breta og Kínverja að halda sinni sjálfstjórn að Bretar afhentu héraðið til Kínverskra stjórnvalda, en nú hafa stjórnvöld í Beijing ákveðið að meina þingmönnunum að taka sæti sín, sem er viðameira inngrip inn í stjórn héraðsins en þau hafa áður gert.

Byggir ákvörðunin á þeirri forsendu að þingmennirnir hafa neitað að taka að fullu undir hollustueið við kínverska ríkið sem stjórnvöld segja nú að sé forsenda þess að fá að taka embætti. Á sunnudagskvöld voru mótmæli og átök á götum úti, en vikum saman hafa verið deilur á þinginu vegna þessa.

Langir fangelsisdómar viðurlög við stuðningi við sjálfstæði

Réttarkerfið í Hong Kong tryggir enn þau réttindi sem héraðið fékk við valdaskiptin, en stjórnvöld í Kína áskilja sér rétt til að túlka lög héraðsins.

Sýnir þetta inngrip að stjórnvöld ætla sér að takmarka frelsi héraðsins, en í öðrum héröðum landsins eru langir fangelsisdómar við því að kalla eftir sjálfstæði sinna héraða.