Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, segir réttlætanlegt að hafa ekki auglýst söluna á hlut bankans í Borgun. Íslandsbanki hafi ekki viljað kaupa hlutinn á því verði sem fékkst fyrir hlutinn, og því hafi það verið metið sem svo að verðið væri gott. Steinþór segir í samtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins að bankinn hafi hagnast um milljarð króna á sölunni.

Landsbankinn seldi nýverið rúmlega 31 prósent hlut sinn í greiðslumiðlunarfyrirtækinu Borgun, fyrir tæpa 2,2 milljarða króna. Kaupendurnir voru tveir, Eignarhaldsfélagið Borgun, samlagsfélag margra stofnfjárhafa og félagið BPS, sem er í eigu tólf helstu stjórnenda Borgunar. Hluturinn var ekki auglýstur til sölu og ekkert opið söluferli fór fram.

Hann segir í samtali við RÚV að almennt séð sé betra að auglýsa svona hluti til sölu, en það geti þó verið tilvik sem réttlæti að brugðið sé frá þeirri stefnu.

„Það er ýmislegt. Það er hvernig eignarhaldið er þarna og hverjir voru að bjóða. Nú er Landsbankinn í minnihluta með rétt rúmlega 30% í fyrirtækinu. Stór samkeppnisaðili okkar er með meirihluta í þessu félagi. Það er ekki hægt fyrir okkur að nálgast viðkvæmar viðskiptaupplýsingar þess aðila. Þeir eru stærstu viðskiptaaðilinn við Borgun. Kaupendur sem komu fram þarna voru stjórnendur að stórum hluta. Og þeir höfðu þá ákveðna hagsmuni. Þeir ætluðu sér að ná í þetta. Þannig að við vildum ekki fara að opna þetta fyrir aðra aðila, við ekki með neina aðkomu að félaginu, enga stjórnarmenn og enga innsýn inn í félagið og takmarkaða þekkingu, að fara að opna það og segja „við erum að fara að selja, en við ætlum að treysta á upplýsingar frá samkeppnisaðila og stjórnendum sem vilja kaupa félagið“,“ segir hann í samtali við RÚV.

Hann segist efast um að hægt hefði verið að fá hærra verð fyrir hlutinn með því að auglýsa hann til sölu.