Ríkisstjórnin hefur lagt til tvær breytingar á skattalögum, sem e.t.v. hafa ekki farið hátt. Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra telur breytingarnar hins vegar skipta miklu máli.

„Fyrst má nefna afnám 20/50 reglunnar svokölluðu sem felur það í sér að hluti arðgreiðslna úr félögum getur verið skattlagður sem launatekjur. Það sem svona reglur gera er einfaldlega það að í stað þess að greiða arð úr fyrirtækjum, sem svo er hægt að nota í aðrar fjárfestingar, situr féð inni. Menn fara svo í alls konar undarleg útgjöld inni í fyrirtækinu til að nota þetta fé. Þetta gerðist líka áður en fjármagnstekjuskatturinn var lækkaður til mikilla muna síðast þegar Sjálfstæðisflokkurinn var við völd. Fyrirtæki eiga að skila hagnaði sem eftir atvikum er hægt að nota í aðrar fjárfestingar eftir að hann hefur verið greiddur út til hluthafa. Hinn möguleikinn er að hagnaðurinn fari hreinlega í neyslu, fyrirtækisbíla og flottar skrifstofur. Reglan var illa hugsuð og hunsaði þá hvata sem skattkerfið býr til og því er mikið þjóðþrifaverk að fella hana út. Þetta mun ekki hafa nein neikvæð áhrif á tekjur ríkissjóðs, en gæti hins vegar haft umtalsverð jákvæð áhrif ef menn taka nú að greiða út sem arð fé sem hefur safnast saman í fyrirtækjunum,“ segir hann.

Hagnaður af afleiðuviðskiptum

Hin breytingin snýr að því hvernig hagnaður af afleiðuviðskiptum hefur verið skattlagður í tilviki einstaklinga. „Þetta er í raun réttlætismál, því staðan hefur verið sú að í stað þess að greiða skatt af raunverulegum hagnaði þá hafa menn verið rukkaðir um skatt af vergum hagnaði af sumum samningum, en ekki er tekið tillit til taps sem verður af öðrum. Fyrirtæki hafa mátt jafna út hagnað og tap, en núna hafa einstaklingar verið dæmdir sekir fyrir að gera þetta sjálfir og fleiri hafa verið ákærðir. Þessu hefði átt að breyta miklu fyrr.“

Nánar er rætt við Illuga í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins.