*

föstudagur, 18. október 2019
Innlent 4. júní 2019 09:32

Réttmætur vafi um hæfi í Al-Thani

Ekki var fallist á frávísun málsins þó sakborningar og verjendur hafi líklega vitað af tengslum Árna og Kolbeins fyrir fram.

Ritstjórn
Einn hæstaréttardómari var vanhæfur í Al-Thani málinu að mati MDE.
Haraldur Guðjónsson

Réttmætur vafi var um hlutleysi Árna Kolbeinssonar, hæstaréttardómara, í Al-Thani málinu sökum fjölskyldutengsla við Kolbein Árnason, son hans og fyrrverandi starfsmanns lögfræðisviðs Kaupþings. Ekki var fallist á frávísun málsins á þeim grundvelli að sakborningar og verjendur hafi vitað af tengslunum fyrir fram. Þetta kemur fram í dómi Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE).

Í Al-Thani málinu voru fjórir stjórnendur Kaupþings, þeir Hreiðar Már Sigurðsson, Magnús Guðmundsson, Ólafur Ólafsson og Sigurður Einarsson, sakfelldir fyrir umboðssvik, hlutdeild í umboðssvikum og markaðsmisnotkun. Dómar þeirra voru á bilinu 4 til 5 1/2 árs fangelsi.

Krafa Kaupþingsmanna um vanhæfi Árna Kolbeinssonar var byggð annars vegar á því að eiginkona hans hefði verið stjórnarmaður Fjármálaeftirlitsins á þeim tíma er málið var til meðferðar. Að mati MDE komst sú málsástæða ekki að. Var það gert á þeim grunni að er málið var tekið fyrir í Hæstarétti þá hefðu þeir ekki gert athugasemdir við setu Árna í dómnum. 

Sama máli gengdi hins vegar ekki um tengsl Árna við son sinn, Kolbein Árnason, sem starfaði um skeið fyrir slitastjórn Kaupþings. Fyrir MDE benti ríkið á að í ljósi smæðar lögfræðistéttarinnar á Íslandi þá væri afar ólíklegt að sakborningarnir og verjendur þeirra hefðu ekki vitað af störfum Kolbeins. Þrátt fyrir það féllst MDE ekki á að rétt væri að vísa málinu frá af þeim sökum en ríkið hafði byggt á því að fjórmenningunum hefði borið að krefjast þess að Árni viki sæti í dóminum til að kæruleiðir heimafyrir teldust tæmdar. 

Í dome MDE er bent á það að á meðan sakamálið var til meðferðar fyrir dómstólum hafi störfum Kolbeins fyrir slitastjórnina verið lokið. Þá hafi hann ekki með nokkrum hætti komið að sakamálinu. Þó hafi hann sinnt ráðgjöf öðru hvoru á meðan málið var til meðferðar. 

„Í ljósi þessa telur dómurinn að fjölskyldutengslin milli Hr. K [Kolbeins Árnasonar] og Á.K. séu nægt til að skapa réttmætan vafa til hlutleysis Á.K. sem dómara í sakamálinu gegn mönnunum,“ segir í dómi MDE. Var meðal annars bent á það að slitastjórnin hefði höfðað einkamál gegn tveimur sakborninganna.

Fjórmenningarnir höfðu einnig talið að brotið hefði verið á rétti þeirra til réttlátrar málsmeðferðar sökum þess að þeir hefðu ekki fengið nægilegan aðgang að gögnum málsins og að þeir hafi ekki fengið nægan tíma til að undirbúa mál sitt. Þessu hafnaði dómurinn en einn dómari skilaði sératkvæði og taldi að brotið hefði verið gegn þeim þar sem þeim var ekki gefinn nægur tími til að kynna sér skjöl málsins. 

Sakborningarnir töldu að saksóknara hefði borið að veita þeim aðgang að öllum gögnum málsins svo þeir gætu leitað í þeim að gögnum sem gætu leitt til sýknu. Því var hafnað í ljósi þess hve gífurlegt magn skjala var um að ræða. Í dómi MDE er á það bent að ríkið hafi ekki verið að halda sönnunargögnum frá sakborningum og hafi ekki haft neinn hag af því að halda þeim fyrir utan málið. Því hafi ekki verið um brot að ræða. Þá var einnig á það bent að sakborningarnir og verjendur þeirra hafi ekki á neinum tímapunkti leitað dómsúrskurðar um efnið til að reyna að fá aðgang að gögnunum.

Stikkorð: Kaupþing Al-Thani MDE