Íslandspóstur hagnaðist um 256 milljónir króna á síðasta ári samanborið við hagnað upp á 104 milljónir króna árið 2020. Rekstrartekjur námu rúmum 7.453 milljónum króna og lækkuðu lítillega frá fyrra ári þegar þær námu 7.457 milljónum króna.

EBITDA, afkoma fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta, nam 970 milljónum króna árið 2021 og EBITDA-hlutfallið var 13%. Árið 2020 nam EBITDA 658 milljónum króna. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu, en ársskýrsla Póstsins fyrir síðasta ár hefur verið birt á vefsíðu opinbera hlutafélagsins.

Eigið fé félagsins er 3.563 milljónir króna. Stöðugildum fækkaði um 7% milli ára en þau voru 557 í árslok 2021 samanborið við 601 árið áður. Þá lækkuðu vaxtaberandi skuldir úr 1.635 milljónum króna í 1.180 milljónir króna milli ára.

Þess ber þó að geta að á síðastliðnum tveimur árum hefur Íslandspóstur fengið úthlutað tæplega 1,1 milljarði króna úr ríkissjóði vegna alþjónustubyrði sem hvílir á fyrirtækinu lögum samkvæmt. Er það annars vegar gert í ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) nr. 1/2021 , þar sem framlagið var 509 milljónir króna, og hins vegar ákvörðun Byggðastofnunar nr. Á-1/2022 , þar sem Póstinum var úthlutað 563 milljónum króna. Byggðastofnun tók við eftirlitshlutverki PFS í byrjun nóvember síðastliðinn er PFS varð að Fjarskiptastofu.

Því er ljóst að ef ekki hefði komið til þessa framlags úr ríkissjóði hefði rekstrarniðurstaðan orðið önnur.

Sjá einnig: Ríkiskerfið meðvirkt með Póstinum

„Aðgerðir sem ráðist var í til að laga reksturinn að breyttum markaðsaðstæðum hafa leitt til þess að fyrirtækið er betur undir það búið að mæta áskorunum og lykilmælikvarðar sem notaðir eru við stýringar skila fyrirtækinu góðri rekstrarafkomu. Við fögnum þeim árangri sem náðist 2021 en EBITDA-hlutfall félagsins (13%) hefur ekki verið jafnsterkt frá efnahagshruni. Síðustu ár hefur orðið bylting í samskiptaleiðum og viðskiptaháttum fólks, bæði hér á landi og erlendis. Íslandspóstur hefur lagt áherslu á að fylgja þessari þróun enda hefur eftirspurn eftir þjónustu Póstsins breyst. Bréfasendingum fækkar áfram og 2021 var örlítill samdráttur í pakkasendingum frá fyrra ári. Því er ákveðinn sigur að hafa náð að verja tekjur félagsins á árinu,“ er haft eftir Þórhildi Ólöfu Helgadóttur, forstjóra Póstins í fréttatilkynningu.

„Breytingar á starfsemi Íslandspósts undanfarin ár hafa sýnt að starfsfólkið er ein mikilvægasta auðlind fyrirtækisins. Í ljós hefur komið að starfsmenn eru vel í stakk búnir til að vinna að jákvæðri fyrirtækjamenningu sem byggist á lausnamiðaðri þjónustuhugsun, frumkvæði, ábyrgð, hvatningu og gleði.

Pósturinn hefur fjölgað afhendingarstöðum sínum um allt land með það að markmiði að tengja saman fólk, samfélög og fyrirtæki - og mæta viðskiptavinum sínum þar sem þeir eru staddir. Í lok árs 2021 höfðu verið sett upp um 50 póstbox. Stefnt er að því að setja upp 60 póstbox til viðbótar 2022. Í Póstboxum Póstsins er bæði hægt að sækja og póstleggja sendingar og eru boxin víðast hvar aðgengileg viðskiptavinum allan sólarhringinn,“ segir Þórhildur jafnframt í fréttatilkynningu.