Alþjóðlega kvikmyndahátíðin Reykjavík International Film Festival (RIFF) hefst eftir viku en það verður í ellefta skipti sem hún verður haldin. Gengið hefur á ýmsu fyrir hátíðarhöldin en ljóst var um síðustu áramót að Reykjavíkurborg myndi ekki styðja við hátíðina þetta árið. Rúm þrjátíu prósent af tekjum kvikmyndahátíðarinnar, sem veltir um sextíu milljónum króna á ári hverju, koma frá opinberum styrkjum og var því ákvörðun borgarinnar þungur biti í rekstri RIFF.

Framkvæmdastjóri hátíðarinnar, Hrönn Marinósdóttir, stofnaði hana árið 2004 út frá MBA verkefni sem hún vann hjá Háskólanum í Reykjavík.

Hvernig hefur rekstur hátíðarinnar gengið allan þennan tíma?

„Okkur hefur tekist að halda okkur nokkurn veginn réttu megin við núllið. Það eru alls konar óvissuþættir sem spila inn í. Gengið er t.d. á fljúgandi ferð en við fáum styrki í erlendri mynt þannig að það er ekkert alltaf á vísan að róa í þeim efnum. Við gerum áætlanir og þá tekur gengið eitthvert stökk eða fellur. Reksturinn hefur verið eins og að hefur verið stefnt. Þetta er „non-profit“ hátíð sem á eðli málsins samkvæmt að vera rekin án hagnaðar. Það sem stjórnin hefur verið að vinna að og það sem skiptir mestu máli er að ná langtímasamningum við stærstu samstarfsaðila okkar, þannig að það verður sem minnst óöryggi. Reykjavíkurborg hefur t.d. þann háttinn á að flestir sem standa að menningarviðburðum þar fá ekkert að vita fyrr en í lok desember eða í byrjun janúar hvort þeir fái styrki fyrir starfsárið. Það er fremur seint, sérstaklega fyrir svona stóran viðburð því nauðsynlegt er að geta horft fram í tímann.“

„Reksturinn hefur því gengið með gríðarlega mikilli vinnu, sérstaklega eftir hrun. Hátíðinni árið 2008 lauk daginn eftir að Geir Haarde sagði „Guð blessi Ísland“. Þá hugsuðum við hvort við ættum að sleppa þessu, hvort þetta væri ekki bara búið. Á þeim tíma voru okkar þrír stærstu bakhjarlar, Icelandair, Baugur og Landsbankinn, og þá misstum við. Þá veltum við því fyrir okkur hvort við ættum að hvíla hátíðina og halda áfram þegar betur árar eða hvort við ættum að þrauka. Að mínu mati er ekkert vit í því að bíða, vegna þess að búið er að byggja upp vörumerki, sem krefst mikillar vinnu. Við ákváðum því að fara aðra leið. Við gerðum fleiri þjónustusamninga við fyrirtæki, þannig að í staðinn fyrir að það færi fjármagn inn í reksturinn þá höfum við fengið þjónustu. T.d. gefur DHL okkur gott verð á flutningaþjónustu, Sagafilm reddar okkur tækjum og tólum og Síminn hannar appið fyrir okkur. Við höfum líka unnið mikið með sjálfboðasamtökum og starfsnemum eins og tíðkast víða á kvikmyndahátíðum erlendis. Allt að hundrað manns, ungt fólk aðallega, kemur hvaðanæva að úr heiminum sérstaklega til að vinna á RIFF. Sumir koma í nokkra mánuði og aðrir bara rétt fyrir hátíðina. Þannig höfum við náð að halda okkur á floti.“