Nú þegar gjaldþrot gæti blasað við flugfélaginu Wow air, velta eflaust þeir farþegar sem eiga bókað flug með félaginu hver réttarstaða þeirra sé, fari svo að félagið sigli í þrot.

Á vef Samgöngustofu er hægt að kynna sér réttarstöðu flugfarþega í fjárhagserfiðleikum flugrekenda og ferðaskrifstofa. Þar segir að réttarstaða flugfarþega í fjárhagserfiðleikum flugrekenda og ferðaskrifstofa sé misjöfn, eftir því hvaða þjónusta hefur verið keypt, af hverjum og hvar. Réttarstaða flugfarþega sé þó best tryggð með kaupum á alferð hjá ferðaskrifstofu með ferðaskrifstofuleyfi.

Samkvæmt Samgöngustofu er réttarstaða ef um er að ræða alferð eftirfarandi:

  • Ferðaskrifstofa skal hafa tryggingu fyrir endurgreiðslu fjár sem viðskiptavinur hefur greitt vegna alferðar sem enn er ófarin og til heimflutnings viðskiptavinar úr alferð, hvort sem hann er innan lands eða erlendis, komi til gjaldþrots eða rekstrarstöðvunar ferðaskrifstofu.
  • Trygging skal einnig ná til þess að gera viðskiptavini kleift að ljúka alferð í samræmi við upphaflega áætlun hennar.

Réttarstaða ef um er að ræða flugfar eingöngu er hins vegar þessi:

  • Ekki er um skyldutryggingu flugrekanda/ferðaskrifstofu að ræða.
  • Sé ferð ekki hafin og hafi verið greidd með greiðslukorti er farþegum bent á að hafa samband við greiðslukortafyrirtæki sitt í því skyni að óska eftir endurgreiðslu fargjaldsins. Þá geta farþegar ávallt lýst yfir kröfu í þrotabú vegna kostnaðar sem gjaldþrot hafði í för með sér.

Hvað er alferð?

Þá segir á vef Samgöngustofu að alferð „kallist sú ferð sem er seld eða boðin til sölu á heildarverði, tekur lengri tíma en 24 klst. eða felur í sér gistingu. Hún er auk þess fyrirfram samansett af að minnsta kosti tveimur eftirfarandi atriðum“:

  • Flutningi
  • Gistingu
  • Annarri þjónustu við ferðamenn sem tekur til verulegs hluta ferðarinnar.

Hvað er ferðaskrifstofa?

Þá segir að ferðaskrifstofa sé einstaklingur eða  lögaðili sem setur saman, býður fram og selur alferðir í atvinnuskyni innanlands eða erlendis, hvort sem er að eigin frumkvæði eða eftir beiðni viðskiptavinar. Ferðaskrifstofa geti jafnframt haft með höndum og veitt alla þá ferðatengdu þjónustu sem ferðaskipuleggjandi gerir, hvort sem hún sé veitt í formi alferða eða ekki. Hugtakið ferðaskrifstofa nái bæði til ferðaheildsala og ferðasmásala samkvæmt lögum nr. 80/1994.

Hver sá sem hyggist starfa sem ferðaskipuleggjandi eða ferðaskrifstofa skuli hafa til þess leyfi Ferðamálastofu.

Flugrekendur ábyrgist ekki að farþegar sem eru staddir erlendis komist heim sér að kostnaðarlausu

Flugrekendur ábyrgjast ekki að farþegar sem eru staddir erlendis komist heim sér að kostnaðarlausu. „Skyldutrygging sú sem skilyrði er fyrir ferðaskrifstofuleyfi gildir eingöngu ef keypt hefur verið alferð. Geti flugrekandi ekki innt af hendi samningsskuldbindingar sínar vegna greiðslustöðvunar eða gjaldþrots, er farþegum bent á að hafa samband við greiðslukortafyrirtæki sitt hafi ferð verið greidd með greiðslukorti,“ segir á vef Samgöngustofu.

Þá eigi farþegar sem sem staddir eru erlendis og ekki hafa lokið ferð þegar flugrekandi fer í þrot, að hafa að hafa samband við greiðslukortafyrirtæki sitt í því skyni að óska eftir endurgreiðslu ferðar. Sé ekki um alferð að ræða keypta af ferðaskrifstofu með ferðaskrifstofuleyfi eigi farþegar kröfu á þrotabúið vegna þess kostnaðar sem þeir verða fyrir vegna heimferðar.