Breska fjártæknifyrirtækið Revolut tilkynnti í dag að stafræna bankaþjónustan Revolut Bank væri nú opin fyrir notendur á Íslandi og í níu öðrum Evrópuríkjum. Í tilkynningu kemur fram að viðskiptavinir Revolut á Íslandi séu um 6 þúsund talsins. Fyrirtækið segir að innlánsreikningar ásamt annarri fjármálaþjónustu þess muni m.a. veita viðskiptavinum meira val og öryggi en hefðbundir bankar.

Uppfært 17:45 : Seðlabanki Íslands áréttar að Revolut Bank UAB er ekki með sérstakt bankaleyfi á Íslandi heldur hafi félagið starfsleyfi sem lánastofnun í Litháen og lýtur eftirliti Bank of Lithuania. Revolut Bank hafi tilkynnt um þjónustu sína yfir landamærin og Seðlabankanum hefur borist tilkynning frá eftirlitsaðilum í Litháen um þjónustu félagsins hér á landi. Þjónusta félagsins er veitt frá Litháen en heimild til að veita þjónustu byggir á tilkynningum milli eftirlitsaðila og gagnkvæmri viðurkenningu. Seðlabankinn tekur einnig fram að einungis innlánastofnanir geta tekið á móti innlánum frá viðskiptavinum og telur því villandi að tala um fjártæknifyrirtæki í þessu samhengi.

Í tilkynningu Revolut segir að innlán viðskiptavina sem skrá sig í Revolut Bank verða tryggð upp að 100 þúsund evrum, eða sem nemur 14,5 milljónum króna miðað við gengi krónunnar í dag, af litháenska innstæðutryggingasjóðnum Deposit and Investment Insurance.

„Revolut er eitt af mest ört vaxandi fjártæknifyrirtækjum í Evrópu því við viljum hafa viðskiptavininn í forgrunni á öllu því sem við gerum. Okkar vöruhönnun er einstök, við erum ekki með nein falin gjöld og við erum stöðugt að byggja nýjar og frumlegar fjármálaafurðir,“ er haft eftir Joe Heneghan , forstjóra Revolut Bank.

„Að setja á fót bankann á Íslandi mun veita viðskiptavinum okkar aukið öryggi og traust ásamt því að gera okkur kleift að bjóða upp á fjölda nýrra vara og þjónustu í framtíðinni.“

Revolut er alþjóðlegt fjártæknifyrirtæki með meira en 18 milljónir viðskiptavina. Árið 2020 setti Revolut á fót bankaþjónsutu sína í Póllandi og Litháen. Með viðbótinni í dag starfrækir Revolut bankaþjónustuna í 28 Evrópuríkjum.

Í tilkynningunni segir að með Revolut appinu eiga viðskiptavinir að sjá sundurliðun á útjgöldum, sett sér markmið fyrir hvern útgjaldaflokk, stjórnað gjöldum fyrir áskriftarþjónsutum ásamt því að greiða og rukka kunningja. Þá eiga notendur að geta greitt og millifært peninga um heiminn án falinna gjalda og stundað gjaldeyrisviðskipti.

Revolut var metið á 33 milljarða dala í fjármögnunarlotu í sumar þegar fjártæknifyrirtækið sótti 800 milljónir dala. Fyrirtækið varð þar með verðmætasta óskráða tæknifyrirtæki Bretlands. Meðal fjárfesta er vísisjóðurinn Vision Fund 2 sem er í stýringu hjá SoftBank.

Fréttin var uppfærð eftir að Seðlabanki Íslands sendi frá sér eftirfarnadi tilkynningu vegna málsins:

Revolut Bank UAB, sem er með starfsleyfi sem lánastofnun í Litháen og lýtur eftirliti Bank of Lithuania, hefur tilkynnt um þjónustu sína yfir landamæri og hefur Seðlabanka Íslands borist tilkynning frá eftirlitsaðila í Litháen um þjónustu félagsins hér á landi. Þjónusta félagsins er veitt frá Litháen en heimild til að veita þjónustu byggir á tilkynningum milli eftirlitsaðila og gagnkvæmri viðurkenningu og er því ekki um sérstakt bankaleyfi útgefið á Íslandi að ræða.

Í fréttum hefur komið fram að breskt fjártæknifélag hafi opnað á viðskipti Íslendinga við evrópskan banka fyrirtækisins. Seðlabankinn vill taka það fram að einungis innlánastofnanir geta tekið á móti innlánum frá viðskiptavinum og er því rangt eða a.m.k. villandi að tala um fjártæknifyrirtæki í þessu samhengi. Vakin er athygli á því að fyrirtækjum utan evrópska efnahagssvæðisins, m.a. frá Bretlandi er ekki heimilt að veita þjónustu hér á landi nema að undangengnu samþykki Seðlabanka Íslands.