Reyki Vodka, sem framleitt er í Borgarnesi, hefur numið land í Bretlandi og verður það til sölu í tæplega 200 verslunum undir merkjum Waitrose þar í landi. Þetta er í samræmi við það sem boðað var um áramótin þegar Ölgerðin seldi framleiðsluna á vodkanum til nýrra eigenda. Á meðal þeirra var Malcolm Walker, forstjóri bresku matvörukeðjunnar Iceland Foods.

Það er skoski viskíframleiðandinn Willam Grant & Sons sem flytur viskíið inn og dreifir því í Bretlandi í nafni dreifingarfyrirtækisins First Drinks, að því er fram kemur í netmiðlinum DBR.

Hayley Aldous, vörumerkjastjóri First Drinks, segir í samtali við DBR, markmiðið að festa Reyki vodka í sessi í Bretlandi. Vodkinn er markaðssettur sem áfengur drykkur í háum gæðaflokki og telur Aldous hann eiga mikið inni.

Á meðal annarra drykkja undir hatti First Drinks eru Glenfiddich, Grant's, The Balvenie, Hendrick's Gin, Tullamore Dew og fleiri viskí.