Ríkisstjóri Hawaii í Bandaríkjunum hefur skrifað undir ný lög sem banna öllum undir 21 árs aldri að reykja venjulegar sígarettur eða rafsígarettur.

Þessi nýja löggjöf á að koma í veg fyrir að unglingar reyki, en Hawaii er fyrsta fylkið sem grípur til þessara aðgerða. Annars staðar í Bandaríkjunum er löglegt fyrir fólk 18 ára og eldri að reykja, þó að nokkrar sýslur og borgir hafi hækkað aldurinn. Má þar meðal annars nefna New York borg.

„Að hækka lágmarksaldurinn fyrir reykingar sem hluta af neyslustýringu okkar á tóbaki mun draga úr reykingum meðal ungmenna og auka líkurnar á því að þau alist upp án tóbaks,“ sagði ríkisstjórinn David Ige.

Samkvæmt rannsókn sem gerð var á Hawaii byrja 86 prósent reykingamanna að reykja fyrir 21 árs aldur, en þessi breyting á lögunum tekur gildi í upphafi næsta árs.