*

sunnudagur, 1. ágúst 2021
Innlent 14. október 2014 08:55

Reykjanesbæ vantar 15 milljarða króna

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar kom saman á fundi í gær vegna fjárhagsvanda sveitarfélagsins.

Ritstjórn
Reykjanesbær.
Hörður Kristjánsson

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar kom saman á fundi í gær vegna fjárhagsvanda sveitarfélagsins sem frumdrög skýrslu endurskoðunarfyrirtækisins KPMG varpi ljósi á. Þetta kemur fram í frétt DV í morgun.

Þar kemur fram að Reykjanesbæ vanti 15 milljarða króna til þess að geta staðið við lögboðnar skuldbindingar um að koma skuldum niður fyrir 150% af árlegum tekjum. Bæjarstjórnarmenn óttist jafnvel greiðslufall bæjarsjóðs.

Friðjón Einarsson, formaður bæjarráðs, vill þó ekki taka svo djúpt í árinni en segir í samtali við RÚV að ljóst sé samkvæmt ársreikningi 2013 og sex mánaða uppgjöri sem nýlega var birt sé staðan mjög erfið. „Við gerum okkur grein fyrir því og við erum búin að vera mjög samhent í því, öll bæjarstjórnin, að vinna í þessum málum. Saman klárum við þetta mál.“

Viðbót kl. 09:14:

Reykjanesbær sendi frá sér tilkynningu rétt í þessu þar sem fram kemur að síðastliðið vor hafi bæjarstjórn Reykjanesbæjar samþykkt að fá KPMG og Harald Líndal Haraldsson hagfræðing til að gera úttekt á fjárhagslegri stöðu bæjarins. Þessa dagana sé verið að kynna fyrstu niðurstöður fyrir bæjaryfirvöldum ásamt tillögum að aðgerðum.

Segir í tilkynningunni að það sé ljóst að staðan sé flókin en með samstilltu átaki bæjaryfirvalda, starfsmanna og bæjarbúa sé hægt að snúa henni við innan þeirra tímamarka sem sveitarfélögum hafi verið gefin. Á næstu sjö árum, eða fyrir árið 2022, eigi skuldahlutfall A og B hluta bæjarsjóðs að vera komið undir 150% af tekjum samstæðunnar. Það sé öllum ljóst að verkefnið sé krefjandi en gerlegt.

Að lokum er áréttað að Reykjanesbær sé með öll sín lán í skilum. Nánar verður farið yfir stöðuna á borgarafundi í Stapa þann 29. október nk.

Stikkorð: Reykjanesbær