Reykjanesbær gaf út fjárhagsáætlun fyrir árin 2016 til 2019 nú fyrir stundu en áætlunin gerir ráð fyrir áframhaldandi tapi á rekstri bæjarins og aukinni skuldasöfnun.

Fjármagnsgjöld fara úr 42% af skatttekjum í 38% af skatttekjum

Gert er ráð fyrir að skatttekjur bæjarins muni aukast úr um 6 milljörðum króna árið 2014 í 7,6 milljarða árið 2016. Á sama tíma er gert ráð fyrir að fjármagnsgjöld bæjarins muni aukast rúmlega 2,5 milljörðum árið 2014 í rúmlega 2,9 milljarða. Árið 2014 fóru því um 42% af öllum skatttekjum bæjarins í greiðslu fjármagnsgjalda en samkvæmt áætluninni mun 38% af skatttekjum fara til greiðslu fjármagnsgjalda árið 2016.

Bæjarfélagið mun halda áfram að skila tapi en tapið var rúmlega 1,7 milljarður árið 2014. Gert er ráð fyrir að tap á rekstri bæjarins verði 752 milljónir árið 2015, tæpar 600 milljónir árið 2016 og rekstrartap verði um 233 milljónir árið 2019.

Samkvæmt áætlun bæjarins mun eigið fé bæjarins verða neikvætt á árinu 2017. Eigið fé bæjarins var um 2,3 milljarðar í lok árs 2014 og mun samkvæmt áætlun bæjarins verða 122 milljónir í lok árs 2016.

Skuldahlutfall lækkar, en einungis vegna aukinna tekna

Skuldir bæjarins munu halda áfram að hækka, en þær voru um 40,7 milljarðar í lok árs 2014 en gert er ráð fyrir að þær muni vera um 48,6 milljarðar í lok árs 2019.

Áætlunin gerir þó ráð fyrir því að skuldahlutfall bæjarins muni lækka úr 253,6% sem það var í lok árs 2014 og mun verða 236,7% í lok árs 2019. Þessi lækkun á skuldahlutfalli kemur til vegna aukningar í tekjum, en gert er ráð fyrir að heildartekjur bæjarins munu fara úr 16,1 milljarði árið 2014 í 20,5 milljarða árið 2019.

Grafalvarleg staða

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar segist í samtali við Viðskiptablaðið gera ráð fyrir því að áætlunin muni taka töluverðum breytingum eftir að samningum við kröfuhafa er lokið. Hann sagði einnig að upphæðin sem þyrfti að fella niður væri umtalsverð, en fyrir stuttu greindi Viðskiptablaðið frá því að Reykjanesbær hefði óskað eftir því að fjórðungur skulda bæjarins verði feldur niður.

Kjartan sagði einnig í samtali við Viðskiptablaðið um miðjan október að staðan væri grafalvarleg , en litlu munaði að bærinn hefði ekki náð að greiða af lánum sem voru á gjalddaga þann 15. október. Kröfuhafar veittu frest á gjalddaga lánanna en sá frestur er rennur út í seinni part nóvember.