Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar var afgreidd 21. desember, en unnið hefur verið að endurskipulagningu fjármála sveitarfélagsins.

Samkvæmt bæjaryfirvöldum í Reykjanesbæ hafa viðræður við kröfuhafa nú skilað því að skilmálar samkomulags liggi fyrir við lánveitendur Eignarhaldsfélagsins Fasteignar.

Viðræðum við kröfuhafa Reykjaneshafnar er þó ólokið. Skilmálar samkomulags við kröfuhafa Fasteignar gerir ráð fyrir skuldbreytingum, skilmálabreytingum og sölu eigna. Ekki er gert ráð fyrir afskriftum eða niðurfellingum skulda.

Samkvæmt tilkynningu munu þessar aðgerðir, ásamt ýmsum öðrum, gera Reykjanesbæ kleift að uppfylla fjárhagsleg skilyrði sveitarstjórnarlaga og miðað við núverandi forsendur er ekki lengur þörf á að sveitarfélagið óski eftir skipun sérstakrar fjárhaldsstjórnar á vegum innanríkisráðuneytisins eins og útlit var fyrir um tíma.