Reykjanesbær hefur samþykkt að veita Reykjaneshöfn víkandi lán upp á 870 milljónir króna. Hefur Reykjaneshöfn ákveðið að nýta 700 milljónir til endurkaupa á skráðum skuldabréfum og til greiðslu inn á lánasamninga. Kemur þetta fram á mbl.is .

Reykjanesbær selur 6,3 milljarða króna skuldabréf, útgefið af Magma Energy Sweden, sem bæjarfélagið eignaðist árið 2009 við sölu á eignarhlut í HS Orku. Ákvæði í lánaskjölum Reykjaneshafnar og í skilmálum tveggja skuldabréfaflokka skuldbinda Reykjanesbæ til þess að lána til hafnarinnar fjórðung af þeim fjármunum sem falla til við söluna á Magmabréfinu.

Við söluna fékk Reykjanesbær um 3,5 milljarða króna í peningum og um 500 milljónir í markaðsskuldabréfum, en eftirstöðvar söluverðsins koma til greiðslu árið 2017. Í samræmi við ofangreindar skuldbindingar mun Reykjanesbær veita Reykjaneshöfn víkjandi lán að fjárhæð 870 milljónir króna.