Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, lýsti því yfir á íbúafundi í Njarðvíkurskóla í gær að hann teldi mikilvægt að bærinn tæki yfir heilsugæsluna af ríkinu og kæmi að stjórnun Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja. Er greint frá þessu í tilkynningu.

Árni sagði á fundinum að reynsla bæjarfélagsins af rekstri mennta-, velferðar og menningarmála hefði verið góð og því væri spurning af hverju ekki ætti að vinna á sama hátt með heilbrigðisþjónustuna og færa hana frá ríkinu.

Á fundinum kom fram að hann hafi átt fyrstu viðræður við heilbrigðisráðherra sem vilji gjarnan ræða hlutverk sveitarfélaga í stjórn heilsugæslunnar og aðkomu þeirra að stjórnum sjúkrastofnana á landsbyggðinni.