Reykjanesbær óskar eftir viðræðum við Heilbrigðisráðuneytið um að sveitarfélagið taki yfir starfsemi Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja (HSS).

Þessi tillaga var samþykkt í Bæjarráði Reykjanesbæjar í morgun.

„Mikilvægt er að tryggja að þær breytingar sem boðaðar hafa verið af Heilbrigðisráðuneytinu um skipulag heilbrigðisþjónustu, tryggi góða og örugga þjónustu fyrir íbúa á starfssvæði HSS auk þess sem að atvinnutækifærum fjölgi,“ segir í bókun Bæjarráðs.

„Til að tryggja áframhaldandi gæði í starfsemi sjúkrahúss, heilsugæslu og skurðstofu og aukin tækifæri á sviði þjónustunnar, er mikilvægt að tryggja skýra stefnu til framtíðar og fylgja henni fast eftir með framkvæmd. Reykjanesbær býðst til að hafa forgöngu um það.“

Í tilkynningu frá Reykjanesbæ kemur fram að Heilbrigðisráðuneytið hefur þegar samþykkt að funda í byrjun febrúar til þess að ræða hugmyndir um gerð þjónustusamnings við sveitarfélagið um rekstur heilbrigðisþjónustu.