Reykjaneshöfn hefur beðið kröfuhafa sína um að fresta öllum greiðslum af skuldbindingum sínum til 1. maí 2011 og að leggja ógreidda vexti við höfuðstól. Áætlun þess efnis var kynnt á fundi með kröfuhöfum hafnarinnar síðastliðinn miðvikudag.

Þegar eru gjaldfallnar afborganir vegna skuldbindinga hennar um 364 milljónir króna. Reykjaneshöfn lofar á móti að hún stofni ekki til nýrrar lántöku né veiti veð í neinum eignum á þessu tímabili. Kröfuhafarnir hafa út nóvember til að taka afstöðu til tillögunnar. Allir kröfuhafar verða að samþykkja hana.

Vaxtaberandi skuldir Reykjaneshafnar nema 4.928 milljónum króna. Áætlaður hagnaður hafnarinnar fyrir fjármagnskostnað er talin verða 65 milljónir króna. Þar af eru 19 milljónir vegna reglulegrar starfsemi en afgangurinn er í formi endurgreiddra fasteignaskatta.