Reykjaneshöfn var rekin með 103,5 milljóna króna tapi í fyrra, sem er töluvert betri afkoma en árið 2013 þegar tapið nam 650,5 milljónum. Tekjur jukust verulega á milli ára, fóru úr 219,3 milljónum árið 2013 í 609,3 milljónir í fyrra. Skýrist munurinn einkum af tekjuliðnum "lóðagjöld og efnissala úr námu", en þær tekjur námu árið 2013 9,3 milljónum, en voru 382,3 milljónir í fyrra. Þó voru tekjurnar í fyrra töluvert undir áætlun, en þar var gert ráð fyrir 711,9 milljónum í tekjur.

Rekstrarhagnaður nam 382,6 milljónum króna í fyrra, samanborið við aðeins rétt rúmar fjórar milljónir árið 2013, en fjármagnsgjöld vega þungt í rekstrinum. Námu þau 655,5 milljónum króna árið 2013, en 488,4 milljónum króna í fyrra. Eigið fé er neikvætt um 4,5 milljarða króna.

Skuldir Reykjaneshafnar námu um síðustu áramót 7,8 milljörðum króna og þar af voru skuldir við lánastofnanir 4,3 milljarðar. Í tilkynningu til kauphallarinnar segir að eignastaðan muni styrkjast á næstu árum, en það mat byggir á því að virði lóðargjalda á óúthlutuðum lóðum í Helguvík, samkvæmt gjaldskrá, sé um 4,5 milljarðar króna.