Reykjaneshöfn hefur sent frá sér óendurskoðaðan árshlutareikning hafnarinnar fyrir fyrri helming ársins.

Rekstrarniðurstaða Reykjaneshafnar eftir fjármagnsliði er neikvæð um 271 milljón króna, en áætlun gerði ráð fyrir neikvæðri niðurstöðu um 441 milljón króna. Segir að þetta megi rekja til hærri tekna og lægri fjármagnsgjalda langtímaskulda en búist var við.

Eignir hafnarinnar eru bókfærðar á 2.876 milljónir króna en þar af eru veltufjármunir 65 milljónir króna. Skuldir hafnarinnar með lífeyrisskuldbindingum og leiguskuldbindingum eru 7.618 milljónir króna, þar af eru skammtímaskuldir 618 milljónir króna.

Reykjaneshöfn er að fullu í eigu Reykjanesbæjar, en rekstur hennar er að stofni til fjármagnaður með þjónustutekjum og framlagi bæjarins í formi víkjandi láns.